131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[17:22]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á sölu Símans. Eins og hæstv. forseti sagði er þetta mál nr. 44 og kom fram strax í upphafi þings en þá kom einnig fram annað þingmál sem Vinstri grænir fluttu um Símann og fór fram umræða um það í haust. Síðan hefur þetta mál legið án þess að verða tekið til umræðu. En það er kannski að sumu leyti ágætt að liðið hefur svolítill tími því að ýmislegt hefur gerst frá því að sú umræða sem ég nefndi áðan fór fram í haust.

En ég ætla að snúa mér að tillögunni sjálfri. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans með það að markmiði að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins. Í þessu skyni verði grunnnet Símans skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.“

Í greinargerð segir:

Allt frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað að stefna að sölu Símans hafa verið deilur um málið. Samfylkingin hefur stutt þá einkavæðingu á fjarskiptamarkaði sem í þessu felst, en sett það að skilyrði fyrir stuðningi við málið að grunnnet Símans yrði skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu. Yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hljóta að fela í sér verulegan vanda þótt ekki bætist við að fyrirtækið hafi öll önnur fjarskiptafyrirtæki í greip sinni vegna eignarhalds á öllum mikilvægustu farvegum fjarskipta. Ríkisstjórnarflokkarnir skelltu skollaeyrum við aðvörunum um þær hættur sem falist gætu í því að einkavæða einokunaraðstöðu af þessu tagi og 4. september 2001 kynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að selja hlutafé í Símanum. Fyrst átti að selja 25% hlutafjár til kjölfestufjárfestis sem skyldi svo hafa rétt til að kaupa 10% til viðbótar, þ.e. 35% sem hefði verið ráðandi hlutur í fyrirtækinu. Einnig átti að selja 15% til almennra fjárfesta en engin skyldi þó mega kaupa yfir 5%. Þessar fyrirætlanir undir forustu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra fóru reyndar algerlega út um þúfur eins og frægt varð. Einungis seldust 5% til almennra fjárfesta og aðrar sölufyrirætlanir gufuðu upp.

Nú, þremur árum síðar, hugðist fjármálaráðherrann Geir H. Haarde sem hafði tekið við forræði á hlutabréfum í Símanum af samgönguráðherranum gera nýja tilraun í samvinnu við einkavæðingarnefndina sem nú er komin undir forustu ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu. En eitthvað tafði málið og ekki gekk rófan og nú er einkavæðingarnefndin komin undir forræði Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin hefur ekki breytt fyrirætlunum sínum um að selja grunnnet Símans með fyrirtækinu sem er gríðarlega umdeilt mál, líka í Framsóknarflokknum eftir því sem ég best veit og ekki hefur frést að það mál hafi verði tekið til neinnar meðhöndlunar aftur þó að til þess hafi allur sá tími gefist sem hefur liðið síðan hæstv. ráðherra Sturla Böðvarsson gafst upp á því að selja Símann á sínum tíma. Þetta er allt saman sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að á síðasta ári komust ríkisstjórnin og Alþingi í framhaldi af því að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að skilja flutningsnet raforkunnar frá annarri starfsemi á raforkumarkaðnum til að tryggja eðlilega samkeppni eins og það hét. Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að svipuð rök hljóti að gilda um grunnnet Símans og grunnnet raforkukerfisins og við kvittum algerlega undir þá niðurstöðu sem menn komust að hvað varðar grunnnet raforkugeirans. Þar á aftur að verða uppstokkun á eignarhaldi en grunnnetið hefur þó verið skilið frá sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Nú þegar er ljóst af hræringum á fjarskiptamarkaði að verði grunnnet Símans selt með honum verða til a.m.k. tvö, sumir segja allt að fimm grunnnet í landinu. Ljóst er að slík uppbygging kostar gríðarlega fjármuni og það borgar enginn brúsann nema notendur fjarskiptaþjónustunnar í landinu. Það er því mikið í húfi. Stjórnvöld eru augljóslega á rangri leið í þessu máli en það er mögulegt samt sem áður enn þá að snúa við á þessari braut ef það verður gert áður en menn hefja sölu á hlutum í Landssímanum. Það er full ástæða til að láta reyna á það hvort sá mikli stuðningur sem var á hv. Alþingi við að skilja grunnnet raforkukerfisins frá öðrum rekstri í orkugeiranum er enn til staðar hvað fjarskiptakerfið Símans varðar.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég ætla ekki að gefa upp vonina fyrr en þessi sala hefur farið fram. Alltaf eru nýir liðsmenn að bætast í hóp þeirra sem vilja að grunnnetið verði skilið frá. Síðustu daga, t.d. 27. janúar sl., komu fjarskiptafélögin í landinu, þ.e. Og Vodafone, eMax ehf. ásamt Inter og samtökum aðila sem veita internetþjónustu fram á sjónarsviðið og mótmæltu fyrirhugaðri sölu ríkisins á grunnneti fjarskiptaþjónustu samhliða sölu Símans. Og það er ástæða til að hlusta á þessa aðila. Þeir eru að slást á þessum markaði og munu gera það í framtíðinni. Það er nú þegar farið að reyna á samskiptin milli þessara fyrirtækja og Símans og þau kvarta sárlega undan þeim. Mikil tortryggni er í gangi milli þessara fyrirtækja gagnvart Símanum og það er full ástæða til að halda að sú tortryggni muni ekki hverfa ef ekki verður breyting á þessum hlutum.

Þeir benda á nákvæmlega sömu rök og ég hef hér rakið hvað varðar Landsnetið. Hvers vegna ekki að fara sömu leið og gert var með raforkukerfið? Þeir benda á að Síminn hafi staðið sig mjög illa í þjónustu við þessi fyrirtæki. Þann 29. janúar birtist t.d. frétt í Morgunblaðinu þar sem gerð var grein fyrir því að orðið hafi fimm vikna töf á afgreiðslu á úthlutunum til Og Vodafone frá Póst- og fjarskiptastofnun að hluta til, þar sem þeir eru sem sagt að snúa sér til Póst- og fjarskiptastofnunar og biðja um að hún hlutist til um að Landssíminn afgreiði 90 pantanir af ADSL-tengingum fyrir viðskiptavini Og Vodafone.

Þetta eru ekki fyrstu kvartanirnar sem hafa komið fram um þessi samskipti. Það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að ekki séu tæknileg vandamál til staðar sem séu alla vega ekki vel yfirstíganleg hvað það varðar að skilja grunnnetið frá. Það hefur alla vega ekki verið farið skýrt yfir það í sölum þingsins eða í umfjöllun í samgöngunefnd þingsins.

Ég held að full ástæða sé til þess að kalla nú eftir svörum í sölum Alþingis frá bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum um hverju menn svara þeirri gagnrýni sem er uppi á að ekki skuli vera skilið á milli hvað varðar grunnnet Landssímans og það gert að sérstöku fyrirtæki. Ég er á þeirri skoðun að núna eigi að gera úrslitatilraun til þess að koma mönnum á réttar brautir hvað þetta varðar og að það sé hreint ekki of seint. Ég kalla þess vegna eftir því að talsmenn stjórnarflokkanna mæti hér í umræðuna og geri grein fyrir afstöðu sinni, hvort þeir séu ekki tilbúnir til þess að fara yfir þessi mál upp á nýtt. Það hefur liðið það langur tími og hér hefur komið fram ágætur rökstuðningur fyrir því. Sá rökstuðningur er reyndar fólginn í því að taka undir það sama og við höfum haldið fram langtímum saman, samfylkingarmenn og stjórnarandstaðan í heild, þ.e. að skynsamlegast sé að skilja grunnnet Landssímans frá.

Það er líka orðið alveg ljóst að röksemdir hæstv. ráðherra þessara mála, þ.e. samgönguráðherrans, um að þær reglur sem voru settar á Alþingi tryggi að menn fái alls staðar þessa þjónustu vegna þeirra skilyrða sem voru sett, þ.e. að það verði að þjónusta alla sem koma inn á markaðinn, ganga ekki upp. Fyrirtækin kvarta hástöfum yfir þjónustu Landssímans.

Ætla menn að fara að búa til einhvers konar bákn til þess að fylgja því eftir að Landssími Íslands sinni þeim viðskiptavinum sem eiga að nýta grunnnetið hjá honum? Ég sé ekki fyrir mér að það verði gert. Það er annað sem gerist. Það verða bara til fleiri grunnnet með ærnum kostnaði. Það er niðurstaðan sem menn stefna að með því að halda þessum kúrs til streitu sem ríkisstjórnin hefur sett í þessu máli.