131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:28]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa miklum vonbrigðum með að ekki sé fyrirhugað að setja skýrar lagareglur um hvernig fara eigi með sölu eigna ríkisins.

Það er vissulega rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að hægt er að vitna til margvíslegra reglna sem um þetta gilda. Ef þær væru tæmandi og fullnægjandi þá hefði ekki þurft að setja sérstakar verklagsreglur af forsætisráðuneytinu um þessa sölu og kveða síðan sérstaklega á í þeim reglum um að víkja megi þeim reglum frá. Það er afar mikilvægt að sala ríkiseigna sé trúverðug og fólk trúi því að leitað sé hagstæðustu tilboða og að allir hafi þar jöfn tækifæri. Það olli mér því miklum vonbrigðum þegar mér varð ljóst að þeir sem bjóða í þessi bréf, til að mynda fyrirtækja, hafa ekki möguleika á því að fá upplýsingar um önnur tilboð og hvernig þeim var háttað af þeim sökum að þessi söluaðferð er túlkuð þannig að stjórnsýslulög eigi ekki við um hana af einhverjum sérstökum ástæðum. Ég held að það væri miklu trúverðugra og miklu betra, og það mundi tryggja ákveðna gagnsæi í meðferð þessara mála, að um þetta giltu skýr lög á Alþingi sem Alþingi setti.

Við erum að tala um mjög stór mál. Fram undan er sala Símans, stærsta sala sem ríkið hefur ráðist í og að minni hyggju væri mjög skynsamlegt og mjög mikilvægt að þegar að þeirri sölu kemur þá verði hún að mestu leyti yfir gagnrýni hafin og um hana kunni að myndast og takast mikil sátt. Ég ætla ekki að rekja það sem aðrir hér hafa gert um hvernig ríkiseignum hefur tíðum verið skipt. Það er umræða sem ekki verður kveðin niður nema settar verði skýrar og gagnsæjar reglur um hvernig skuli fara með sölu ríkiseigna og því lýsi ég sérstökum vonbrigðum með að ekki skuli verið að vinna að setningu slíkra reglna.