131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Mismunandi þarfir drengja og stúlkna í grunnskólum.

430. mál
[14:53]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það gerðist hér vorið 1998 að samþykkt var þingsályktun sem átti rót sína að rekja til þingsályktunartillögu Svanfríðar Jónasdóttur o.fl. um að menntamálaráðherra skipaði nefnd fagfólks til að gera tillögur um hvaða aðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna, og jafnframt að gera tillögur um viðeigandi breytingar á kennaranámi. Sú umræða sem stóð að baki þessu máli í þinginu var þörf og góð og árangurinn væntanlega mjög mikill af þessu starfi því ekki færri en þrír menntamálaráðherrar hafa komið að því og nú síðast núverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þessi mál hafa verið mjög umrædd að undanförnu líka. Það má minna á að í PISA-skýrslunni nýju kom fram munur kynja hér á landi í frammistöðu með ýmsum hætti. Þessa dagana er líka verið að kynna nýja bók eftir Ingólf Ásgeir Jóhannesson sem heitir Karlmennska og jafnréttisuppeldi og tekur á ákveðnum sviðum þessa máls. Ég er því miður ekki búinn að lesa hana alla, en ég ætla t.d. að fara á fyrirlestur hjá höfundinum á morgun til að kynna mér þetta betur. Hann leggur, hygg ég, áherslu á jafnréttisuppeldi og ýmsar breytingar á fræðslu og uppeldi í samfélaginu og ekki síður í skólunum, neðstu stigum skólanna, og mér sýnist hann vera með mörg góð ráð bæði til foreldra og annarra uppalenda.

Í þriðja lagi er auðvitað ævistarf Margrétar Pálu Ólafsdóttur sem sprungið hefur út í skólum hennar sem kenndir eru við hjallastefnuna, og það vill svo vel til þó að þessi fyrirspurn hafi verið lögð fram fyrir jól að við vorum þar nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar í gærmorgun í skóla hennar fyrir 5–8 ára börn við Vífilsstaði. Ég verð að segja að það var ákaflega ánægjuleg heimsókn og mjög fróðlegt að kynnast kenningum hennar, í fyrsta lagi úr hennar munni og í öðru lagi að sjá þær verða til í reynd, og ég hef ekki í annan tíma komið í raun og veru í jafnskemmtilegan skóla þó að maður eigi auðvitað ekki að dæma um hluti af nokkurra tuga mínútna kynnum.

Spurningin er sem sé um það hvað störfum þessarar nefndar líði og hverju hún hafi skilað af sér og hverju ráðherra hafi síðan komið í verk af því sem hún lagði til.