131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:19]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við það mál sem hér er á dagskrá, frumvarp til laga um breyting á einkamálalögum og þjóðlendulögum, sem fjallar um gjafsókn.

Við 1. og reyndar 2. umr. var tekist talsvert á um þær hugmyndir hæstv. dómsmálaráðherra að fella niður í gildandi lögum þá möguleika sem fólgnir eru í b-lið 126. gr. núgildandi laga og um það hefur staðið nokkur deila milli okkar stjórnarandstæðinga og hæstv. ráðherra. Í ræðu minni við 2. umr. hvatti ég til þess að hv. þingmenn stjórnarflokkanna læsu málið yfir og reyndu að gera sér grein fyrir hvað hér er verið að gera, því með því að fella niður b-liðinn er verið að þrengja verulega rétt fólks til að eiga möguleika á gjafsókn. Því það sem þingmenn fögnuðu á sínum tíma þegar þetta ákvæði var leitt í lög og þingmenn voru sammála um að væri veruleg réttarbót, á núna þegjandi og hljóðalaust að fella út úr lögunum. Ég hef beðið lögfræðinga nefndasviðs að fara yfir þetta mál fyrir mig til þess að við fengjum vitneskju um hvernig þessu er háttað annars staðar á Norðurlöndum og það virðist vera eftir nokkra skoðun lögfræðinga nefndasviðsins að með því að þrengja 126. gr. niður í a-liðinn eingöngu séum við að gera löggjöf okkar talsvert þrengri en hún er annars staðar á Norðurlöndum, en með því að hafa b-liðinn inni sé hún að hluta til orðin jafnvel víðari en hún er þar. Engu að síður er afar erfitt að bera þetta saman svo vel sé á skömmum tíma en þó er ljóst að ef b-liðurinn verður felldur niður erum við að ganga talsvert lengra en löggjöf nágrannalanda okkar gengur.

Við höfum líka fregnað það í umfjöllun allsherjarnefndar um málið að í Danmörku sé sá háttur hafður á að einstaklingar geti fengið gjafsókn ef þeir vilja fara með mál fyrir Mannréttindadómstólinn og þá þurfi það ekki að vera af fjárhagsástæðum.

Breytingartillagan er flutt af mér og hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefndinni. Þar eru hv. þingmenn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurjón Þórðarson og Guðrún Ögmundsdóttir. Við erum öll sammála um að það sé veruleg skerðing í gangi og við höfum lýst því svo að hér sé um skerðingu á mannréttindum að ræða og höfum þess vegna mótmælt breytingunni mjög harkalega.

Við leggjum til með breytingartillögunni að b-liðurinn verði færður aftur inn í frumvarpið. Við ætlum að reyna að freista þess að hv. þingmenn stjórnarflokkanna átti sig á því að hér sé um að ræða mál af þeim toga að það eigi eftir að koma í bakið á okkur áður en langt um líður ef við förum út í þá gerræðislegu breytingu sem hér er lögð til.

Við gefum því hv. þingmönnum stjórnarliðsins tækifæri til að greiða atkvæði um þessa tillögu. Ég treysti því að menn kynni sér málið vel og ofan í kjölinn því að ég trúi ekki öðru en að réttsýnir einstaklingar og réttsýnir þingmenn sjái hvað verið er að reyna að gera og leggi sig fram um að afstýra því slysi.