131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að því í sínu andsvari að tiltekin mál, verði þetta frumvarp að lögum, geti einstaklingar ekki sótt á grundvelli þeirra ákvæða sem gjafsóknarákvæði einkamálalaganna fjalla um verði þau að lögum. Hún nefndi sem dæmi skattamál þar sem fengin er fordæmisgefandi niðurstaða varðandi tiltekinn hóp manna, skaðabótamál við ríkið vegna varanlegrar örorku, lóðamál og úrskurði ráðherra.

Ég held að hér gæti ákveðins misskilnings. Frumvarpið sem við erum að fjalla hér um skerðir ekki rétt manna til þess að leita sér gjafsóknar eða gjafvarnar hvort sem það er í skattamálum eða skaðabótamálum við ríkið. Það er bara einfaldlega þannig að menn geta gert það svo lengi sem þeir eru undir ákveðnum tekjumörkum. Það er alveg ljóst.

Maður hlýtur að spyrja sig. Er eðlilegt að ríkisvaldið greiði málskostnað manna sem ástæða þykir til að sé stefnt fyrir dómstól, að ríkið standi undir kostnaði við það burt séð frá þeirra tekjum? Er eðlilegt að menn sem hafa haft tiltölulega mikið fé á milli handanna eða verið í hálaunastöðu hjá ríkinu — ég get nefnt sem dæmi frægt dómsmál sem höfðað hefur verið vegna virkjanaframkvæmda fyrir austan — er eðlilegt að ríkið standi undir kostnaði vegna málsóknar fyrrverandi ráðherra á hendur stjórnvöldum? Ég tel svo ekki vera. Telji menn að á rétti sínum sé brotið þá eiga þeir að bera þann kostnað sem hlýst af slíkri málsókn en ekki velta því yfir á ríkisvaldið nema þeir séu svo illa fjárhagslega settir að þeir geti það ekki.