131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Um fundarstjórn.

[15:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég geri athugasemd við fundarstjórn forseta, þ.e. hvernig hann tekur á dagskrá óundirbúnar fyrirspurnir á fundinum. Ég lagði fram beiðni um óundirbúna fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra nokkuð snemma í morgun. Hér hafa verið teknar fyrir fyrirspurnar sem komu mun seinna inn í þingið en mín fyrirspurn komst ekki að og ég geri athugasemdir við það.

Sömuleiðis finnst mér óeðlilegt, þegar fyrir liggja fyrirspurnir frá stórum þingflokki eins og þingflokki Samfylkingarinnar sem 20 manns eru í, að teknar skuli fyrir tvær fyrirspurnir frá Samfylkingunni á sama tíma og teknar eru fyrir tvær fyrirspurnir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem er fimm manna þingflokkur. Mér finnst það ekki eðlilegt. Það verða að gilda einhverjar reglur um hvernig málin eru tekin fyrir. Fyrirspurn mín kom mjög snemma og ég hefði viljað, vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég ætlaði að ræða við verður með leyfi á morgun, eiga hér orðastað við hann í dag. Ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að koma því við.