131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:46]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tók það sérstaklega fram í fyrri ræðu minni að ég teldi að ekki væri við hv. formann landbúnaðarnefndar að sakast heldur var ég að lýsa eftir málum sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur kynnt fyrir okkur nefndarmönnum að væru væntanleg á þessum vetri. Þar á meðal eru mál sem voru til umfjöllunar á síðasta vetri, þannig að ég tel að það geti ekki verið mjög mikið mál að vinna það skaplega að við fáum þau til umfjöllunar í landbúnaðarnefnd.

Ég minntist líka á það í ræðu minni að við hefðum vítin til að varast þau. Í fyrravetur kom nýr samningur við kúabændur til umfjöllunar eftir að frestur til að skila inn málum var útrunninn. Það mál var keyrt í gegn á allt of miklum hraða og algjörlega að óþörfu og ég vil ekki að við förum eins að málum aftur því að ég tel að það sé óþarfi að brenna sig á sama soðinu tvisvar.

Nú eru yfirstandandi samningaviðræður við sauðfjárbændur og ég tel að við eigum að vinna þannig að okkur sé sómi að því á Alþingi, en það gerum við ekki með því að hrista málið fram úr erminni og standa svo frammi fyrir því hvað eftir annað að við sendum frá okkur gölluð lög. Þá staðreynd könnumst við alþingismenn öll við.