131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Lögreglulög.

42. mál
[15:02]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi segja að hv. þm. Sigurjón Þórðarson gerir dómsmálaráðuneytinu greiða með því að leggja þetta frumvarp fram. Ráðuneytið hefur túlkað umræddar reglur þannig að innheimta megi sérstakan löggæslukostnað hjá mótshöldurum eða þeim sem halda skemmtanir þannig að eiginlega mætti segja að þeir haldi uppi löggæslu á öllu mótssvæðinu og öllu umhverfinu í kring, langt út yfir það sem tíðkast. Þessi venja hefur verið stunduð um nokkurra ára skeið og hugmynd hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar er væntanlega að veitast að þeirri venju þar sem núgildandi lög eru túlkuð mjög vítt svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni komst nefndin sem fjallaði um þessi mál að þeirri niðurstöðu að núverandi lagagrunnur til þess að innheimta þetta gjald væri mjög hæpinn. Taka má sem dæmi að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum greiðir 3–5 millj. kr. í löggæslukostnað fyrir þá þrjá daga sem hún er haldin.

Ég vildi vekja sérstaka athygli á því við þessa umræðu að landsbyggðin leitar gjarnan leiða til að styrkja sig með því að efna til eða skapa atburði sem draga til sín fólk, koma til móts við það að m.a. í sjávarútvegi hefur atvinna dregist saman. Störfum hefur fækkað og menn leita nýrra leiða. Þess vegna er mjög slæmt að ráðuneytið, t.d. í þessu tilviki, leyfi sér að túlka þær reglur sem nú eru í gildi á þann hátt sem raun ber vitni og vega með því að slíkri starfsemi. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu þá er það hlutverk ríkissjóðs að greiða löggæslu. Það er ekki hlutverk annarra. Það er hins vegar heimilt að innheimta hjá skemmtanahöldurum greiðslu fyrir löggæslu á svæðum þar sem hátíðin fer fram en ekki víðar, eins og t.d. á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem rukkað er fyrir löggæslu á nánast allri eyjunni, t.d. á Bakkaflugvelli og í Herjólfi. Það var ekki hugmyndin á bak við þá reikninga frá ráðuneytinu sem sýslumönnum er falið að innheimta. Við afgreiðslu fjárlaga er nánast gert ráð fyrir þessum sértekjum hjá sýslumannsembættunum, að þau séu innheimt eins og raun ber vitni án þess að viðeigandi og tilhlýðilegur lagagrunnur sé fyrir því.

Ég vil segja, eins og ég sagði í upphafi, virðulegi forseti, að að mörgu leyti er hv. þm. Sigurjón Þórðarson að skera dómsmálaráðherra úr snörunni og gefa honum færi á að láta af þessari hegðan. Sem stendur eru þessi mál á mjög hálum ís gagnvart þeim lögum sem gilda. Menn teygja sig mjög langt við að innheimta kostnað sem ekki er heimild fyrir.

Ég tek því undir það sem hv. þingmaður sagði áðan og vek athygli á því að í mörgum tilvikum er landsbyggðin að reyna að skapa atvinnu og lyfta ferðaþjónustunni. Það er því mjög miður þegar slíkum tilraunum er mætt eins og ég hef rakið og hv. þm. Sigurjón Þórðarson einnig í ræðu sinni.

Ég hvet til að annaðhvort verði þetta frumvarp samþykkt ellegar hitt að hæstv. dómsmálaráðherra láti af því að innheimta þennan kostnað sem hann hefur gert undanfarin missiri á mjög hæpnum lagagrunni.