131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:16]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Var ekki einhver frjálshyggjumaður sem sagði að enginn málsverður væri ókeypis? Ég man ekki betur, og menn vildu skoða reikninga fyrir öllu sem gert … (Gripið fram í.) Já, var það ekki?

Þegar skoðuð eru gögn frá OECD og heildarsímakostnaður landsmanna er metinn þá var hann lægri hér á landi en nokkurs staðar innan OECD. Það kemur m.a. fram í mjög góðu riti, Símablaðinu, þar sem rifjaðir eru upp þættir úr 90 ára sögu Félags íslenskra símamanna.

Ég virði mismunandi, ólíkar pólitískar skoðanir. Hv. þingmaður segist hafa aðra heimssýn, aðra pólitíska sýn en ég, en ég vil gera greinarmun á því sem annars vegar er huglægt og lýtur að skoðunum manna og hins vegar hinu sem er hlutlægt og byggir á staðreyndum, mælanlegum staðreyndum. Það eru þessar mælanlegu staðreyndir sem ég er að vísa til. (Forseti hringir.) Ég er að vísa til reynslu annarra þjóða af mælanlegum staðreyndum og um það eigum við ekki að þurfa að deila.