131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:34]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu eiga menn að vera trúir sannfæringu sinni. En ég geri þá kröfu til þeirra sem stýra samfélagi okkar eða eiga drjúga hlutdeild í því að þeir byggi trú sína og sannfæringu á rökum sem þá standast skoðun. Og það tel ég ekki vera.

Ég held að ég geti fullyrt að það sé röng staðhæfing hjá hv. þingmanni að ríkisbankarnir — væntanlega er hann að vísa til Landsbanka og Búnaðarbanka — hafi fengið styrki frá hinu opinbera, ríkinu. Landsbankinn fékk lán upp úr 1990 eða á fyrri hluta tíunda áratugarins sem var greitt til baka, það var allt greitt til baka, það er staðreynd.

Landssíminn skilaði tugum milljarða … (Gripið fram í.) Já, allt í lagi, en ég held að það sé rangt sem hv. þingmaður sagði þar, það sé bara rangt. Þetta skulum við skoða en ég tel að þetta sé röng fullyrðing.

Síðan er ég að staðhæfa að Landssíminn hafi skilað miklum fjármunum inn í ríkissjóð, fjármunum sem hann verður að verulegu leyti sviptur vegna þess að hann kemur aðeins til með að fá peninga inn í skatthirslurnar í gegnum skatta, sem verða óneitanlega miklu, miklu minni fjárhæðir.

Hvað varðar hv. þingmann og Sjálfstæðisflokkinn og tengsl hans við hann þá hef ég nú trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið eitthvað við sögu þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal var gerður að formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.