131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:41]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra lauk máli sínu áðan með því að segja að vinnan við að líma skóbætur á fiskveiðistjórnarkerfið væri stöðugt í gangi. Það er alveg rétt. Hún er stöðugt í gangi og hún hefur staðið yfir 20 ár og sér ekki fyrir endann á því. En afleiðingar hins frjálsa framsals í kvótakerfinu eru líka stöðugt í gangi, því miður. Þar sér heldur ekki fyrir endann á þeirri þróun sem er komin á fulla ferð.

Hér eru stjórnarliðar að ímynda sér að þeir séu á einhvern hátt að setja punktinn yfir i-ið, að loka kerfinu, öllum til hagsbóta eins og mig minnir að hv. formaður sjávarútvegsnefndar fullyrti við umræður síðasta vor. Hann er í salnum og því ber að fagna. Ég er ekki viss um að öll sagan hafi verið sögð í þessum málum, langt í frá.

Það var að sjálfsögðu mikið óheillaverk þegar sóknardagakerfið var afnumið síðasta vor. Þar unnu stjórnarliðar sjávarbyggðum Íslands gríðarmikið tjón til framtíðar. Það er sannfæring mín og hún hefur ekki breyst. Það voru gríðarleg vonbrigði að verða vitni að þeim vinnubrögðum, sérstaklega í ljósi þess að menn höfðu farið um héruð kotrosknir í kosningabaráttu og lofað því hver um annan þveran að þeir ætluðu að standa saman um að verja þetta kerfi. Menn vissu að þessir bátar skiptu miklu máli fyrir smærri byggðir mjög víða um landið. Þar fóru mjög framarlega ýmsir stjórnarþingmenn. Ég nenni varla að nefna þá á nafn. Ég gerði mikið af því í vor. Í raun fékk ég alveg upp í kok af því.

En mig langar þó að nefna einn heiðursmann til sögu sem er því miður ekki í salnum núna. Mér þykir það leitt því að ég hefði gjarnan viljað taka smásennu við hann um þetta. En það er hv. þingmaður Hjálmar Árnason sem lofaði því að hann skyldi verja þetta kerfi. Hann gerði það að sjálfsögðu ekki. Hann fór líka mikinn og sagðist hafa lagt fram á hinu háa Alþingi þingsályktunartillögu um skipan nefndar til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins, sóknardagakerfis sem við í Frjálslynda flokknum höfum mælt fyrir sem fyrirmynd að lausn fyrir framtíð byggðanna og nýtingu þeirra á undirstöðu sinni, sem er fiskurinn í sjónum. Þessi þingsályktunartillaga var aldrei afgreidd á Alþingi en hv. þm. Hjálmar Árnason passaði sig náttúrlega á því að nefna það ekki í kosningabaráttunni. Hún fór í gegnum síðari umræðu og síðan ekki söguna meir. Hún var aldrei borin undir lokaatkvæði og var því aldrei afgreidd á þinginu. En það var látið í veðri vaka í kosningabaráttunni að þessi þingsályktunartillaga væri samþykkt fyrir tilstuðlan hv. þm. Hjálmars Árnasonar, sem var að sjálfsögðu fjarri lagi.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, í upphafi máls míns eru afleiðingar frjálsa framsalsins í kvótakerfinu enn í fullum gangi. Við fáum því miður enn slæmar fréttir af því. Síðast fengum við fréttir frá Stöðvarfirði, um að Samherji hygðist loka þar landvinnslu eða að það stefndi í að svo yrði gert. Það er að sjálfsögðu afleiðing þess að fyrirtækið náði ítökum í togara byggðarinnar fyrir nokkrum árum, Kambaröst hét það skip. Það hefur síðan rekið vinnslu þar með um 30–40 starfsmönnum, sem skiptir miklu máli í ekki stærra byggðarlagi. Það er í raun hornsteinninn í atvinnulífi byggðarinnar.

Við höfum undanfarin missiri fengið reglulega að lesa um það, m.a. í Morgunblaðinu, að það gengi alveg ofboðslega vel hjá Samherja á Stöðvarfirði, þar væri allt í blóma, þar væru menn komnir á gott skrið með vinnsluna og þetta væri allt til mikillar fyrirmyndar eftir að stórfyrirtækið hefði hafið innreið sína í þorpið. Menn voru t.d. komnir í samvinnu við annað sjávarútvegsfyrirtæki, Vísi, og það varð tilefni mikillar umfjöllunar í Morgunblaðinu þar sem menn fóru mikinn í því að tala um hvað þeir væru duglegir að hagræða og notfæra sér samlegðaráhrif og ég veit ekki hvað ég á að kalla það.

En allt í einu berast fréttir núna í janúar um að til standi að loka þarna og fara með kvótann norður á Dalvík. Starfsfólkinu er boðið að gera svo vel, ef það vilji vera svo vænt, að flytja með kvótanum norður á Dalvík en annars geti það étið það sem úti frýs. Reyndar er sagt við fólkið að komin séu jarðgöng og það geti hugsanlega notfært sér þau til að finna sér vinnu í öðrum byggðarlögum, takk fyrir og bless. Hurðinni skellt sennilega í lás eftir örfáa mánuði.

Þetta eru nú afleiðingar hins frjálsa framsals og mér þykja þær ansi nöturlegar, herra forseti, því að maður fylgist náttúrlega með í fjölmiðlum og les viðtöl við fólk sem býr á þessum stöðum og maður sér alveg örvæntinguna sem ríkir þegar fólk sér fram á að verið er að taka atvinnugrunnlagið frá þessum byggðum, það er verið að lama atvinnulífið, verið er að ráðast að lífsgrundvelli fólks, fólk lendir í átthagafjötrum, fasteignaverð hrapar o.s.frv. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að hlusta. Ég vil nota tækifærið og benda honum á athyglisvert viðtal sem kom í blaðinu Austurglugginn, sem gefið er út á Austurlandi, núna í janúar og ég vona svo sannarlega að þeir við Skúlagötu 4 séu áskrifendur að þessu blaði þannig að þeir geti lesið um afleiðingar þessa stórkostlega kerfis. Þetta er viðtal við Sigþór Steindórsson, trillusjómann á Stöðvarfirði, og titillinn er: Þetta eru engir guðir.

Það er alveg rétt sem hann segir, þetta eru engir guðir, og er hann þar að tala um stjórnmálamenn og forstjóra Samherja. Þetta eru engir guðir, þetta eru bara mannlegar verur. Og kvótakerfið er heldur ekkert náttúrulögmál, þetta er ekkert þyngdarlögmál, þetta er ekki eitthvað sem ekki er hægt að breyta. Þetta eru mannanna verk og að sjálfsögðu getum við breytt þessu kerfi og að sjálfsögðu verður farið í þá vinnu um leið og okkur tekst að koma þeim stjórnvöldum sem nú ríkja hér á landi frá völdum. Að sjálfsögðu, því að það verður ekki búið við þetta lengur.

Ég kem frá Akranesi og þar eru mjög alvarlegar blikur á lofti eftir að heimamenn glutruðu úr höndum sér yfirráðum yfir sjávarútvegsfyrirtæki sínu sem var HB, heitir núna HB Grandi. Þetta gerðist upp úr árunum 2000–2001, ef ég man rétt. Þá náði Eimskip meirihlutaeign í fyrirtækinu, sölsaði það undir sig, bjó til sjávarútvegsrisa sem hét Brim og síðan var sá risi leystur upp og HB komst í hendur Granda. Þetta var mjög mikið reiðarslag fyrir allan sjávarútveg á Akranesi, ég leyfi mér að fullyrða það. Ég vogaði mér að segja þetta í heyranda hljóði í fjölmiðlum og annars staðar bæði árið 2002 og líka árið 2003 og reyndi að vara menn við því sem væri að gerast en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sérstaklega þustu fram til varnar og töldu þetta allt saman vera reginfirru hjá mér. Ég var sakaður um að ég væri að ráðast á persónur og annað þess háttar. En ég var einfaldlega að reyna að benda á að hér værum við komin inn á mjög hættulega braut. Akurnesingar væru búnir að glata yfirráðaréttinum yfir nýtingarrétti sínum á auðlindinni og hér eftir réðu þeir ekki ferðinni lengur.

Það hefur nú heldur betur sýnt sig, tel ég vera, á undanförnum mánuðum að þeir ráða ekki ferðinni lengur. Það eru einhverjir forstjórar í Reykjavík sem stjórna því hvað gert er með sjávarútveg á Akranesi í dag. Til að mynda núna á loðnuverðtíðinni hefur nánast enginn loðnufarmur borist til Akraness. Vegna hvers? Jú, þetta fyrirtæki keypti sig inn eða keypti upp fyrirtæki á Vopnafirði sem heimamenn höfðu keypt einmitt til að reyna að halda nýtingarréttinum að auðlindinni í byggðinni sinni. HB Grandi keypti upp sjávarútvegsfyrirtækið Þang á Vopnafirði og virðist núna þessa dagana vera að færa allan uppsjávarkvóta, sem m.a. var á Akranesi, yfir á Austfirði, til Vopnafjarðar og þar eigi að byggja upp uppsjávarvinnsluna í framtíðinni. Þetta er sú staðreynd sem blasir við. Þetta, ef af verður, er alveg gríðarlegt rothögg fyrir Akranes. Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, sagði í viðtali við útvarpið á sínum tíma að HB stæði sennilega undir hátt í fjórðungi af öllum launatekjum á Akranesi og Akranes er fimm þúsund manna bær. Hér eru mjög alvarlegir hlutir á ferðinni.

Síðast í morgun fengum við þær fréttir að forstjóri HB Granda hefði hætt störfum. Hann var kannski síðasti vonarpeningurinn í þessu öllu saman, Sturlaugur Sturlaugsson, einn af HB-fjölskyldunni svokölluðu og í raun eini Akurnesingurinn sem eftir var í stjórn þessa fyrirtækis, en nú er hann á förum. Þar með hygg ég að síðasta hindrunin sé fallin úr vegi gegn því að forráðamenn HB Granda nái að sölsa þetta allt saman undir sig og fara fram eins og þeim sjálfum hentar án þess að taka nokkurt tillit til hagsmuna Akurnesinga á neinn hátt og það verði sagt við okkur Akurnesinga eins og sagt er við fólk á Stöðvarfirði: Þið getið bara étið það sem úti frýs. Þið eruð búin að fá göng og þið eruð búin að fá stóriðju og hvað eruð þið að kvarta?

En, virðulegi forseti, þetta er nú bara ekki svona einfalt vegna þess að við erum að tala um endurnýjanlega auðlind sem skapar mjög mikil verðmæti. Við erum að tala um aðganginn að þeirri auðlind. Það er mjög alvarlegt mál ef byggðarlag er í einu vetfangi svipt aðganginum að nýtingarréttinum að auðlindinni vegna þess að þetta er endurnýjanleg auðlind.

Ég tel að þessi þróun, bara þessi þróun ein og sér þar sem menn eru að versla með þennan nýtingarrétt fram og til baka leggi byggðirnar í rúst allt í kringum landið hægt og hægt. Það dregur úr mætti þeirra hægt og hægt og fólk sér alveg hvað er að gerast, það gerir sér alveg grein fyrir því hvað er hér á ferðinni. Ég tel að í raun muni þetta verða banabiti kvótakerfisins þegar upp verður staðið. Allir heiðvirðir Íslendingar munu sjá að þetta getur ekki gengið svona. Það getur ekki gengið að við séum að reyna að byggja upp landið með annarri hendinni og síðan leggja það allt í rúst með hinni og það á sama tíma.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra að sinni. En ég hef, herra forseti, miklar áhyggjur af mörgu í fiskveiðistjórn okkar og hef miklar áhyggjur af framtíð margra sjávarútvegsbyggða. Það hlakkar ekki í mér þó að ég leyfi mér að fullyrða að flest þeirra viðvörunarorða sem við í Frjálslynda flokknum höfum reynt að viðhafa hér á þingi og annars staðar í þjóðfélaginu mörg undanfarin ár eru einfaldlega rétt, þau eru einfaldlega sönn. Það er leitt til þess að vita að annars þokkalega vel gefnir menn skuli ekki geta opnað augun og horfst í augu við þetta og séð að við erum á rangri ferð, við erum á rangri vegferð, við erum að gera hlutina rangt, þetta skilar ekki þeim árangri sem við ætluðumst til og það er fyllilega kominn tími til að við förum að reyna að hugsa hlutina upp á nýtt og reyna að leita leiða til breytinga en ekki að reyna að festa meingallað kerfi í sessi, reyna að breiða út þann ranga boðskap að hér sé nánast komið á koppinn eins konar náttúrulögmál sem ekki sé hægt að breyta, það sé orðið of seint að reyna að breyta því og ekki þýði að reyna að berjast gegn þessu, að þetta sé bara komið til að vera. Það er alrangt.

Við í Frjálslynda flokknum höfum á takteinum aðferðir til að bakka út úr þessari vitleysu og við munum ekki hika við að gera það þegar okkar tími kemur, svo mikið er víst.