131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Verðmæti og ráðstöfun losunarheimilda.

385. mál
[13:19]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Því miður mengum við mennirnir jörðina æ meira og æ hraðar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú hafa þjóðir heims tekið höndum saman í Kyoto-samningnum um að reyna að reisa rönd við loftslagsmengun og gróðurhúsaáhrifum sem af því leiða. Sú viðleitni skiptir okkur Íslendinga ákaflega miklu máli því að gróðurhúsaáhrifin geta haft ófyrirsjáanleg áhrif á lífríkið við Ísland til lengri tíma litið

Með því að þjóðirnar hafa tekið sig saman um að setja þak á mengunina eru nú gefnir út kvótar og mengunarleyfi, þ.e. mengunarkvótar ganga kaupum og sölum í Evrópu frá síðustu áramótum. Álver eru þó enn utan þessa kerfis og Íslendingar hafa með íslenska ákvæðinu fengið heimild til að menga um 1,6 millj. tonna af koltvísýringi á ári án þess að það hafi áhrif á hinar almennu mengunarheimildir okkar. Mengi menn umfram heimildir eru þeir nú í Evrópu sektaðir. Þannig væru þeir sektaðir fyrir 1,6 millj. tonna af koltvísýringi um 5 milljarða kr. árlega næstu þrjú árin og um 13 milljarða á ári eftir það.

Áætlað hefur verið að markaðsverðmæti fyrir hvert tonn gæti verið á bilinu 10–30 evrur á ári sem þýðir að 1,6 millj. tonna næmu að lágmarki einum milljarði kr. á ári.

Ég hef þess vegna beint fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hvert markaðsverðmæti íslenska ákvæðisins í Kyoto væri miðað við markaðsverðið eins og það gerist í kaupum og sölum í Evrópu á þessu fyrstu vikum hins nýja markaðar.

Iðnaðarráðherra lagði fram yfirlit yfir ráðstöfun þessara heimilda, 1,6 millj. tonna, í ríkisstjórn 16. nóvember sl. og ég spyr einnig hvort að í því yfirliti hafi verið gert ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Hvernig hyggst ráðherra úthluta þeim heimildum sem eftir eru ef fleiri en einn aðili sækjast eftir þeim heimildum? Hvernig verður ákveðið hvaða álver á að fá þær losunarheimildir sem eftir eru ef fleiri en einn keppast um þær?