131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:44]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og ráðherra fyrir umræðuna. Það sem stendur eftir þessa umræðu er að ríkisstjórnin segir pass í þessu máli. Hún skilar auðu þegar kemur að lausn á vanda garðyrkjunnar í ljósi hás orkuverðs og rafmagnsverðs. Það hvað gerist með garðyrkjuna er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar og árangursleysi og áhyggjuleysi Framsóknarflokksins af málefnum landbúnaðarins hlýtur að vera farið að nálgast það að vera algjört, eins og fram kom ágætlega í umræðu hér í gær um deyfðina uppi í landbúnaðarráðuneyti þar sem hæstv. ráðherra hefur ekki komið nokkru einasta máli frá sér svo mánuðum skiptir.

Það sem hér um ræðir er alvarlegt mál. Garðyrkjan er stóriðjugrein innan landbúnaðarins, 80–90% afurða hennar koma frá svæði þar sem megnið af raforkunni er framleitt, þ.e. á Suðurlandsundirlendinu. En garðyrkjan nýtur þess í engu. Hún er sett út í horn. Hún á í miklum vanda og tekin hafa verið dæmi um það, eins og ég nefndi í upphafi, að tilteknir garðyrkjubændur greiða allt að 100 þús. kr. á dag í rafmagn. Það fara 100 þús. kr. á dag í rafmagnsreikninginn. Þetta eru hrikalega háar tölur.

Um leið fær erlend stóriðja raforkuna á allt að fjórfalt lægra verði ef þær tölur eru réttar og virðist af svörum hæstv. ráðherra að dæma enginn áhugi eða velvilji fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að gera garðyrkjunni kleift að njóta sömu kjara, að njóta þess að kaupa ódýrari raforku, verða þannig samkeppnishæfari við aðra framleiðslu og innflutta þannig að heilsársframleiðsla á grænmeti og blómum fái þrifist án þess að verða fyrir barðinu á erlendri samkeppni sem nýtur styrkja og niðurgreiðslu.

Ég vil því aftur brýna ráðherrann og skora á hana að gera eitthvað í þessum málum og líta til þess að garðyrkjan fái raforkuna á sanngjörnu verði þannig að hún fái þrifist hér áfram.