131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:47]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hér falla stór orð og mikið kapphlaup hófst um stærsta orðið greinilega. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að kenna ekki í brjósti um mig. Það er engin ástæða til þess. Ég hef það mjög gott og var á glæsilegum fundi á Siglufirði í gær á vegum Framsóknarflokksins og er því í mjög góðu skapi í dag. (BjörgvS: Hvað voru margir?) Þar voru fleiri tugir manna.

Annaðhvort skilja hv. þingmenn ekki þetta nýja fyrirkomulag eða þá að þeir tala eitthvað út í loftið því það er svo ótrúlegt að hlusta á þennan málflutning. (SJS: Hver talar nú út í loftið?) Það er þannig að þetta er ekki mitt málefni, eins og hér er sagt, að beita mér fyrir því að Landsvirkjun og Rarik bjóði lægra verð. Ég stjórna ekki þessum fyrirtækjum frá degi til dags. Þetta gerist á markaði. Það er nú bara þannig. (Gripið fram í.) Þessi viðskipti gerast á markaði. Þegar samið er um raforku til stóriðju þurfa báðir að hafa hag af, bæði orkusalinn og fyrirtækið sem slíkt. Þannig er þetta.

Hvað varðar garðyrkjuna (Gripið fram í.) hins vegar þá er ég mjög glöð að heyra hvað garðyrkjan á mikinn stuðning í þingsalnum. Ég er algjörlega sammála um því að þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein. Ég sagði áðan að viðræður eru í gangi. Landbúnaðarráðuneytið fer með þennan málaflokk og er að beita sér í því að þannig umhverfi geti skapast í kringum garðyrkjuna að þessi mikilvæga atvinnugrein geti haldið áfram sínum rekstri. Málið er í farvegi. Ég bið hv. þingmenn að hlusta á hvað sagt er úr þessum ræðustól. Svo er talað um klúður og axarsköft, að ég viti ekki hvert ég sé að fara og þar fram eftir götunum. Það vil svo vel til að ég veit það bara mjög vel og ég þykist skilja þetta kerfi, en svo held ég að sé nú ekki með alla sem hér hafa talað í þessari umræðu.