131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[11:27]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá skýrslu sem hann flutti í upphafi umræðunnar í morgun. Það er algjörlega ljóst á upptalningu hæstv. ráðherra á fjármunum sem í þetta hafa farið að þar er vaxandi fjármagn veitt, en þar er þörfin líka mikil og við náum ekki utan um þetta vandamál sem skyldi.

Þegar umræðan stóð sem hæst í þjóðfélaginu um málskotsrétt forseta um mánaðamótin júní/júlí 2004 var ráðherrum í ríkisstjórn Íslands send eftirfarandi áskorun um menntun og starfsendurhæfingu geðsjúkra. Bréf þetta var dagsett 29. júní, með leyfi forseta:

„Stjórn Geðhjálpar skorar á menntamálaráðherra, félagsmálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að tryggja nú þegar framhald á starfsemi Fjölmenntar og Geðhjálpar um menntun og starfsendurhæfingu geðsjúkra. Enn hefur ekki verið tryggð fjárveiting til verkefnisins þrátt fyrir viðurkenningu á mikilvægi þess.

Yfir 100 einstaklingar hafa nú beðið í óvissu um nokkurra mánaða skeið um afdrif menntunar sinnar og starfsendurhæfingar í haust. Öllum kennurum og starfsfólki hefur verið sagt upp störfum. Þetta ástand hefur skapað öryggisleysi hjá nemendum, kennurum og aðstandendum.“ Sagði í þessari ályktun.

Um það leyti sem sumarþinginu lauk var allt enn þá í óvissu og í viðtali í Morgunblaðinu við Svein Magnússon, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, kom m.a. fram, með leyfi forseta:

„Vaxandi fjöldi einstaklinga hefur sóst eftir viðkomandi námi og endurhæfingu en á fyrstu önn útskrifuðust 60 manns, á annarri um 80 og nú síðast rúmlega 110 manns. Haustið 2002 var könnuð þörfin fyrir kennslu af þessu tagi. Niðurstaðan og viðræður við fagfólk gaf til kynna að um 175 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu mundu hafa áhuga á að nýta sér slíkt tilboð.“ Taldi Sveinn að um miklu fleiri einstaklinga væri að ræða en þeir einstaklingar væru ekki í neinum tengslum við geðheilbrigðiskerfið.

Síðan sagði í viðtalinu í, með leyfi forseta:

„Sveinn telur að endurhæfingarþáttur verkefnisins sé óumdeildur og því til staðfestingar bendir hann á persónubundnar staðfestingar frá fagfólki innan heilbrigðisgeirans. „Það er alveg sama hvað viðkomandi heitir, hver hann er og í hvaða ástandi hann er, þetta verkefni skiptir sköpum varðandi bata, viðhald á geðheilbrigði og að virkni einstaklinganna komist á. … Þær þrjár annir sem verkefnið hefur staðið yfir hafa meðal annars leitt það af sér að einstaklingar hafa komist í þá virkni að halda áfram námi og í kjölfarið komist út í almenna menntageirann. Það er vísbending um hvaða jákvæðu áhrif þetta hefur sem og að hér erum við að fá inn einstaklinga sem hafa verið algerlega óvirkir vegna veikinda sinna sem tengjast náminu sem slíku, hafa ekki getað lesið og ekki getað skrifað. Aðrir hafa dottið út úr framhalds- eða háskólum og hefur verið gert kleift að brúa það bil sem á skortir varðandi framhald. Þetta hefur það í för með sér að þessir einstaklingar hafa komist skör ofar í þessari þörf sem allir hafa og samfélagið kallar eftir til þess að lifa bærilegu lífi og framlegð í sameiginlega sjóði.““

Undir þessi viðhorf tek ég heils hugar. Við verðum að leggja grunninn til hagsbótar fyrir framtíðina. Stjórnvöld þurfa að huga að því hvort unnt sé að vinna með fyrirtækjum að því að ráða geðsjúka til starfa til að efla þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Þar hafa félagasamtök komið að með góðum árangri, t.d. klúbburinn Geysir. Það er staðreynd að fjölgun öryrkja má að stórum hluta rekja til fjölgunar ungs fólks með geðsjúkdóma. Það þarf að styðja til sjálfshjálpar með aðstoð í námi og starfi ef mögulegt er. Það er forvarnaverkefni sem getur skilað þjóðarbúinu miklu.

Það skapar ákveðinn vanda að fleiri en eitt ráðuneyti sinna þeim málaflokkum sem snúa helst að geðsjúkum. Veikindi þeirra falla undir heilbrigðisráðuneytið, atvinnu- og búsetumál undir félagsmálaráðuneytið og menntamál undir menntamálaráðuneytið. Oft þarf því að leita til tveggja til þriggja ráðuneyta og því er erfiðara að bjóða fólki upp á heildarlausnir.

Á síðasta hausti var endurflutt á Alþingi tillaga til þingsályktunar af þingmönnum Suðurkjördæmis um að gengið yrði frá samningum um stofnun sérkennslu- og meðferðardeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda. Ráðherrum heilbrigðis- og menntamála var ætlað að finna lausnir eins og þær sem nánari grein var gerð fyrir í greinargerð.

Þetta var 24. mál þessa þings og var rætt 9. nóvember. Þá kom margt fram um þann mikla og vaxandi vanda sem við er að fást. Ljóst er af þeim upplýsingum sem þar var vitnað til og af greinargerð með málinu að það þolir ekki bið. Umsagnir um málið frá Akranesi, Akureyri, Siglufirði ásamt frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Félagi íslenskra sérskólakennara mæltu allar með því að vel og hratt yrði unnið að þeim lausnum sem best dygðu á hverju landsvæði. Bent er á að aðferð og úrræði sem henta á einum stað þurfi að skoða vel því að aðstæður eru misjafnar. Það verður m.a. að skoða út frá aldri, ástandi og þörfum geðfatlaðra.

Í ljósi þess að vandinn var þekktur þá var svar heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins nokkuð furðulegt, svo ekki sé meira sagt, þegar óskað var umsagnar þess um þingsályktunartillöguna. Þaðan bárust þessi skilaboð, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið telur ekki tilefni til að gefa umsögn að svo stöddu þar sem heilbrigðis- og tryggingaráðherra mun tjá sig um þingsályktunina í umræðum á Alþingi ef þurfa þykir.“

Það gerði hæstv. heilbrigðisráðherra í morgun og sagði m.a. að mikil þörf væri á nýjum vistunar- og meðferðarúrræðum.

Allir sem þekkja til málefna geðfatlaðra virðast sammála um að vandinn geti aðeins vaxið frekar á þessu sviði í næstu framtíð. Þeir telja ekki undan því vikist að setja til þeirra mála mun meira fjármagn og auka þjónustuna í takt við fjölgun geðfatlaðra. Það virðist einnig ljóst að mestur árangur næst ef nógu snemma er brugðist við, á barns- eða unglingsaldri. Greining vandans er því lykilatriði og snörp viðbrögð með markvissri þjónustu og kennslu eru líklegust til að fá það besta fram hjá hverjum geðfötluðum einstaklingi síðar á ævinni. Það er honum sjálfum til gæfu og gengis og vandamönnum og að sjálfsögðu í þágu þjóðfélagsins sem nýtir þá starfskrafta sem ella færu fyrir lítið og þjóðin bæri af því meiri kostnað. Þjálfun, gæfa og geta eru verðmæti hjá geðfötluðum sem öðrum.

Mörg úrræði standa til boða og margt hefur verið gert, eins og hæstv. ráðherra vék að í morgun. Á geðsviði Reykjalundar hafa um 400 manns verið á biðlista. Áætlað er að, verði ekki gripið til aðgerða, 600 manns verði á þeim biðlista á næsta ári. Allar beiðnirnar eru vel ígrundaðar, beiðnir frá læknum þar sem um er að ræða fárveikt fólk. Fjármagn hefur verið óbreytt samkvæmt þjónustusamningi við heilbrigðisráðuneytið þar sem einungis er gert ráð fyrir 130–150 komum á ári. Heilbrigðisráðherra hefur viðurkennt að brýnt sé að bregðast við þessum vanda. Í ræðu heilbrigðisráðherra í morgun var farið yfir að á fjöldamörgum sviðum þyrfti að takast á við það mikla vandamál sem hér um ræðir. Hann vék m.a. að starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss og hvað þar þyrfti að gera á heilbrigðissviði.

Ég tek undir það sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði, að miklir fjármunir hafi verið settir í þessi mál á undanförnum árum. Vandinn er hins vegar vaxandi og virðist sem við verðum að taka enn frekar á en gert hefur verið. Ég heiti heilbrigðisráðherra stuðningi mínum við að reyna að takast á við þann hluta málsins að afla frekara fjár í málaflokkinn.

Besti árangur sem við náum í þessum málum fæst ef við hefjumst nógu snemma handa á ferli hvers einstaklings, reynum að gefa honum tækifæri til að nýta þá hæfileika sem hann hefur, þjálfa hann, efla og styrkja þannig í raun þjóðfélagið til framtíðar og nýta hæfileika hvers einstaklings, geðfatlaðra sem annarra.