131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:40]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki auðvelt að reka fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisgreinum á Íslandi í dag. Nú blasir við það ástand sem flestir töldu sig vita að kæmi fyrr en seinna og lengi hefur verið vitað um, hvaða áhrif efnahagslífið yrði fyrir af þeim miklu framkvæmdum sem eru uppi á hálendi Íslands og hvaða áhrif það hefði á útflutnings- og samkeppnisgreinar hér á landi. Ekki er því um að ræða neina skyndilega eða ófyrirséða hættu sem steðjar að þessum greinum og mér finnst satt að segja ekki hægt fyrir ráðamenn að yppa öxlum og segja bara eins og mér fannst hæstv. forsætisráðherra segja í svari sínu: Þetta reddast.

Fyrirtækin hafa verið að búa sig undir þetta ástand og byggja upp varnir á móti þeim ruðningsáhrifum sem þenslan veldur og ég verð að segja að það er í raun aðdáunarvert og oft og tíðum illskiljanlegt hvernig íslenskum fyrirtækjum, sem hafa orðið fyrir hinu síhækkandi gengi íslensku krónunnar, hefur tekist að halda sjó í rekstri sínum og tekist að draga úr tilkostnaði þrátt fyrir talsverðar innlendar kostnaðarhækkanir, sumar hverjar meira að segja af völdum ríkisins.

Ef við lítum á útflutninginn á árinu 2004 þá varð hann u.þ.b. 200 milljarðar kr. Aftur á móti ef við tökum þennan útflutning og reiknum hann upp á meðalgenginu eins og það var á árinu 2001 miðað við vöruviðskiptavogina, þá hefði þessi útflutningur numið u.þ.b. 20 milljörðum kr. hærri tölu aðeins vegna gengisáhrifa. Hér er ég eingöngu að tala um að gengið hafi breyst þannig að krónan hafi styrkst um tæp 12% sem meðalgengi. Ég er ekki að tala um þá stöðu sem fyrirtæki sem selja í Bandaríkjadollurum horfa framan í þessa dagana.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að staða efnahagsmála á Íslandi væri mjög traust. Ég er ekki viss um að fólkið sem fékk fyrir nokkrum dögum uppsagnarbréf sín í fiskvinnslufyrirtækjunum sé sammála því að staða efnahagsmála á Íslandi sé ákaflega traust. Það verður að spyrja hæstv. ráðherra: Er allt í lagi að hefðbundin fyrirtæki á landsbyggðinni leggi upp laupana vegna þess þrýstings sem er í hagkerfinu og vegna hins háa gengis? Er það bara allt í lagi og er ekkert við því að gera?

Hæstv. ráðherra sagði að íslenska hagkerfið væri lítið og það skapaði vandræði við hagstjórn. Hann sagði einnig að íslensk fyrirtæki hefðu hagrætt hjá sér og mætt þessu með því að sameinast og búa til stærri og hagkvæmari heildir. Því er full ástæða til að spyrja varðandi íslenska ríkið: Er ekki kominn tími til að velta því fyrir sér hvort við ættum að tengjast stærri efnahagsheildum? Og varðandi hina íslensku krónu, hinn litla auma gjaldeyri, væri ekki rétt að sameina þann gjaldmiðil einhverjum stærri og sterkari eins og talað hefur verið um að fyrirtæki á Íslandi þurfi að gera? Ég held að það sé kominn tími til að hin íslenska króna fari í sömu spor.