131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálaeftirlitið.

45. mál
[15:32]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta fáeinum orðum við það sem fyrri ræðumenn hafa sagt og allir lokið upp einum munni um að mikilvægt sé að búa vel að starfsemi Fjármálaeftirlitsins og það þurfi að geta starfað öflugt og sjálfstætt. Þegar sú leið var valin að sameina á einn stað allt eftirlit með vátryggingastarfsemi, bankarekstri og fjármálaumsvifum öðrum er mikið undir. Það skiptir miklu máli að fullt traust sé borið til stofnunarinnar og hún sé í þannig stellingum og þannig staðsett í kerfinu að það sé hafið yfir allan vafa og alla tortryggni. Sjálfstæði skiptir þar náttúrlega höfuðmáli, að stofnunin sé örugglega óháð og geti starfað algerlega sjálfstætt gagnvart bæði viðfangsefnum sínum, þ.e. hagsmunaaðilunum, þeim sem starfa á viðkomandi sviði og gagnvart stjórnvöldum eða fyrst og fremst framkvæmdarvaldinu.

Menn hafa t.d. velt því upp hvort það væri nógu heppilegt fyrirkomulag að þeir aðilar sem eftirlit er haft með greiði kostnaðinn af eftirlitinu, hvort hættur geti verið fólgnar í því fyrirkomulagi að stofnunin sæki alla fjármuni sína til þeirra aðila sem hún á að hafa eftirlit með. Vissulega er þannig um búið að Alþingi ákveður með hvaða hætti það er og einstakir aðilar geta ekki haft á það áhrif. En það sjónarmið á rétt á sér að menn séu vel á verði gagnvart slíku. Hitt sjónarmiðið er svo auðvitað ekki óeðlilegt að þeir aðilar standi straum af kostnaði við það eftirlit sem með þeim er haft.

Hitt snýr að stjórnvöldum og framkvæmdarvaldinu og ráðuneyti viðkomandi málaflokks. Ég held að hægt sé að færa fyrir því mjög gild sjónarmið að ekki sé heppilegt að Fjármálaeftirlitið sé undir viðskiptaráðuneytinu. Það sé þvert á móti þannig að ef Fjármálaeftirlitið starfar á annað borð í skjóli af einhverju ráðuneyti ætti það ekki að vera viðskiptaráðuneytið. Það má líka velta því fyrir sér af hverju sú leið var ekki valin að láta Fjármálaeftirlitið fylgja beint eða óbeint Seðlabankanum þegar hann var færður undir forsætisráðuneytið og Fjármálaeftirlitið væri frekar þar til húsa en hjá viðskiptaráðuneytinu.

Það þarf eins og áður segir að vera hafið yfir alla tortryggni hvernig um þetta er búið. Ég hef heldur ekki endilega sannfæringu fyrir því, ef eftirlitshlutverkið er í forgrunni þegar við horfum á verkefni og stöðu stofnunarinnar, að yfir stofnun af þessu tagi eigi að vera stjórn. Það er ekki endilega þannig sem ég held að verði best og öflugast um sjálfstæði slíkrar starfsemi búið heldur sé henni valinn staður þar sem hún er ósnertanleg og í fullkomnu skjóli af einhverjum heimilishaldara, en starfi að öðru leyti algerlega sjálfstætt og hafi fyrst og fremst trúnað við lög og reglur sem um hana gilda og viðfangsefnið sem slíkt. Í því sambandi hlýtur að koma mjög vel til greina að skoða þann möguleika að vista starfsemi af þessu tagi hjá Alþingi með hliðstæðum hætti og rökin voru færð fram á sínum tíma að Ríkisendurskoðun væri best komin þar. Ekki þannig að Alþingi sé með puttana í þeirri starfsemi eins og lá sumpart í orðum hv. síðasta ræðumanns heldur þvert á móti, Alþingi komi ekki nálægt starfseminni, hún sé algerlega sjálfstæð. Alþingi búi fyrst og fremst til skjólið fyrir stofnunina með því að hafa hana á bak við sig en ekki á hendi framkvæmdarvaldshafa.

Ef menn eru hins vegar að ræða um stjórnsýslu- og framkvæmdaþátt í starfi stofnunar af þessu tagi gegnir þar allt öðru máli. Það sem á að byrja á að gera er að skilgreina hvers eðli starfsemin er og flokka hana upp þannig að óskyldum hlutum sé ekki hrúgað saman í eina og sömu stofnunina. Kannski ætti niðurstaðan að verða sú að bæði á sviði samkeppnismála, samkeppniseftirlits og á sviði fjármálaeftirlits væru þessir þættir aðskildir. Það getur verið á sínum stað að menn telji ástæðu til að hafa einhvers konar stjórnsýslu- og framkvæmdastofnun á sviði viðkomandi málaflokks sem sé armur út úr viðkomandi ráðuneyti með svipuðum hætti og stjórnsýslu- og framkvæmdastofnanir t.d. á vettvangi sjávarútvegsins eru út úr því ráðuneyti. En þá á eftirlitsþátturinn ekki að vera þar saman við, búa á öðruvísi um hann og tryggja að hann sé einmitt algerlega sjálfstæður og óháður þeim framkvæmdarvalds-fúnksjónum og stjórnsýsluverkefnum sem eru á hendi viðkomandi stofnunar. Það fer ekki endilega vel á því að blanda þessu tvennu saman.

Við þingmenn höfum frétt af því í fjölmiðlum að væntanleg séu frumvörp sem horfa til breytinga á samkeppnislöggjöfinni. Málið birtist manni að vísu mjög sérkennilega og hvernig að því hefur verið staðið. Hæstv. ráðherra hefur verið að spila því út að þetta sé í burðarliðnum en síðan virðist málið sitja fast einhvers staðar í þingflokki annars eða beggja stjórnarflokkanna. Hvað um það, þetta hefur kvisast út og má spyrja: Af hverju tökum við ekki þessi mál í heild sinni til skoðunar? Af hverju tekur þingið þetta ekki til sín, bæði samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið og skoðar með hvaða hætti þessu er fyrir komið með það í huga sem mögulega lendingu að eftirlitshlutverkið verði aðskilið frá stjórnsýslu- og framkvæmdaþáttum starfseminnar og þetta vistað sitt á hvorum staðnum og einnig sem möguleika að heimahöfn starfseminnar yrði Alþingi?

Það er leiðinlegt, herra forseti, ef ekki fæst einu sinni upp umræða eða skoðun á hlutum af þessu tagi þegar ítrekað er búið að leggja það fyrir þingið. Mér fyndist a.m.k. lágmark að viðkomandi þingnefndir, í þessu tilfelli fyrst og fremst efnahags- og viðskiptanefnd, færu rækilega yfir það, tækju þess mál til sín og hv. þingmaður Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, léti ekki bjóða sér að það kæmu alltaf utan úr bæ einhver fyrirmæli og fyrirskipanir um hvernig þetta eigi að vera. Ég hélt að þingið ætti að hafa um þetta síðasta orðið. Af hverju beitir formaður nefndarinnar sér ekki fyrir því þegar tillögurnar verða allar fram komnar að efnahags- og viðskiptanefnd hafi frumkvæði að því að taka þessi mál til heildstæðrar skoðunar? Þetta er að mörgu leyti hliðstætt eða skylt, þ.e. fjármálaeftirlitið og samkeppniseftirlitið og væri prýðilegt að nota tækifærið og skoða þetta heildstætt og sameiginlega.