131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármála eftirlitið.

45. mál
[15:45]

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur orðið um þetta mál. Allir þeir sem hér hafa tekið til máls um tillöguna sem er til umræðu hafa lýst stuðningi við það að þessi mál yrðu skoðuð og kannað hvort fyrirkomulag þeirra gæti orðið með betri hætti en nú er ef svo kæmi í ljós.

Ég vil vekja athygli á að frammámenn í fjármálaheiminum leggja líka áherslu á að Fjármálaeftirlitið sé mjög virkt. Ég minntist á ráðstefnu sem haldin var hér í byrjun janúar um fjármálamarkað og eftirlit á fjármálamarkaði og minntist m.a. á ræðu rektors London School of Economics sem lagði þunga áherslu á gegnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins. Hann sagði reyndar að hjá öllum eftirlitsstofnunum væri mikið gegnsæi í störfum þannig að bæði almenningur og hlutaðeigandi atvinnugrein sem væri verið að fjalla um ættu aðgang að því sem verið væri að fjalla um á hverjum tíma og þá hvaða ábendingar kæmu fram.

Hér höfum við aftur á móti búið við mikla leynd. Það hefur verið talið nauðsynlegt til þess að tryggja samkeppnisstöðuna að hér ríkti mikil leynd, t.d. yfir störfum stofnunar eins og Fjármálaeftirlitsins. En þarna kemur virtur erlendur aðili og segir að við eigum einmitt að hugsa þveröfugt, við eigum að starfa mjög opið og gegnsætt því að það styrkir og treystir í rauninni trúverðugleika stofnana sem þessarar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta sé einmitt haft í huga, það gengur þvert á þá stefnu sem stjórnvöld hafa hér rekið á undanförnum árum þar sem allt á að fara fram með mikilli leynd á markaði.

Þriðjudaginn 11. janúar vitnar Morgunblaðið í orð Bjarna Ármannssonar, forstjóra Íslandsbanka, frá þessari ráðstefnu. Þar er vitnað í hann undir fyrirsögninni „Gegnsæi Fjármálaeftirlitsins mikilvægt“ þar sem þessi ráðstefna er rakin. Bjarni Ármannsson sagði samkvæmt þessari samantekt Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, minnti áheyrendur á að fjármálamarkaður á Íslandi ætti sér mun styttri sögu en sams konar markaðir erlendis. Þar af leiðandi væru ekki margar hefðir ekki fullmótaðar, nokkuð sem að hans mati ylli því að Fjármálaeftirlitið væri undir stöðugu álagi að halda í við hinn ört vaxandi fjármálamarkað. Í máli Bjarna kom fram að þetta gæti verið ástæða þess að Fjármálaeftirlitið nýtur ekki þeirrar virðingar sem því ber og að sumir markaðsaðilar færu oft inn á grá svæði, og það jafnvel viljandi.“ — Ég vek athygli á að þarna er verið að vitna í orð Bjarna Ármannssonar bankastjóra sem ætti að þekkja þetta mál kannski hvað best af þeim sem eru að vinna á þessu sviði. — „Bjarni lagði í máli sínu mikla áherslu á mikilvægi þess að markaðsaðilar færu að lögum og reglu enda væru hefðir og venjur til langs tíma litið jafnsterkar og reglur og ekki til góðs ef sú hefð kæmist á að fara ekki að tilmælum eftirlitsaðila.“

Það getur ekki verið að tilefnislausu sem einn af aðalbankastjórum landsins, forstjóri Íslandsbanka, tekur svo djúpt í árinni þegar hann fjallar um fjármálamarkaðinn og mikilvægi þess að innan hans sé unnið samkvæmt góðum viðskiptavenjum og heiðarleika og einnig að eftirlitsaðilinn sé þá búinn til þess að skapa þann trúverðugleika.

Ég vildi sem sagt nefna hve alvarleg gagnrýnin er og þessi ábending um veika stöðu Fjármálaeftirlitsins og hvernig aðilar á markaðnum virðast reyna að fara í kringum lög og reglur sem á að fylgja. Það er einmitt bankastjóri Íslandsbanka sem minnir á það og ég held að þar taki hann rækilega undir þau sjónarmið sem við flytjum hér, flutningsmenn þessarar tillögu um að efla sjálfstæði og störf Fjármálaeftirlitsins.

Ég vil svo bara ítreka það sem hér hefur komið fram í máli manna. Minnst hefur verið á Ríkisendurskoðun. Sú ákvörðun var tekin að færa hana frá fjármálaráðherra og undir Alþingi til þess að tryggja sjálfstæði hennar til vinnslu. Alþingi er samt alls ekkert að stýra Ríkisendurskoðun en henni er þar fundið stjórnsýslulegt skjól og forstöðumaður hennar er ráðinn af Alþingi en ekki af viðkomandi framkvæmdarvaldi. Sama er að segja um umboðsmann Alþingis, hann starfar fullkomlega sjálfstætt á eigin forsendum og samkvæmt þeim lögum sem um hann eru sett þó svo að hann starfi í skjóli Alþingis. Við þekkjum í umræðunni, einmitt hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu, að þessir aðilar hafa í skjóli sjálfstæðis síns tekið upp og gagnrýnt erfiða hluti í aðgerðum og vinnulagi framkvæmdarvaldsins. Þeir hafa líka fengið bágt fyrir. Ég býst við að þeim hafi þá reynst skjól að heyra undir Alþingi en ekki undir einstaka ráðherra og verða að þola þær geðþóttaákvarðanir sem ráðherra beitir hverju sinni.

Þess er skemmst að minnast þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður vegna þess að hún kom með aðra þjóðhagsspá en gert var ráð yfir og þess vegna var talið eðlilegt að leggja hana niður og skipta forstjóranum út. Ég óttast reyndar stöðu Samkeppnisstofnunar, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tæpti hér aðeins á, að einmitt sé verið að taka á þeim aðilum þar. Hér liggja fyrir tillögur um breytingu á lögum um Samkeppnisstofnun sem fela að mínu viti það í sér að verið er að veikja sjálfstæði hennar, verið sé að draga úr henni tennurnar til þess að takast á við þau verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum. Það á að breyta þeim lögum. Það skyldi þó ekki vera að verið væri að refsa henni fyrir að hafa tekið á málum sem hefðu að sumra mati átt að liggja kyrr?

Við höfum dæmin úr samfélaginu hér þar sem þessar eftirlitsstofnanir geta fengið bágt fyrir ef þær ekki fara að vilja ráðherranna eða handbendis þeirra. Það er ágætt þess vegna að minnast hér orða Bjarna Ármannssonar, forstjóra Íslandsbanka, þar sem hann einmitt bendir á hina veiku stöðu Fjármálaeftirlitsins og það að markaðsaðilar færu, eins og hann segir, oft inn á grá svæði hvað varðar lög og reglur, og það jafnvel viljandi. Sá er kannski kjarni þess máls sem ég vildi hér flytja að það er fyllilega ástæða til þess, ekki síst í ljósi ummæla manna á sjálfum fjármálamarkaðnum, að taka bæði stjórnsýslulega stöðu og afl Fjármálaeftirlitsins til skoðunar, eins og hér er lagt til. Það er ekki gefin nein fyrirframforskrift að því hvar Fjármálaeftirlitið skuli liggja en bent á að Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi frá fjármálaráðherra og það hefur orðið þeirri stofnun til góðs. Það hefur verið bent á stofnun umboðsmanns Alþingis sem heyrir undir ráðherra og það hefur tvímælalaust verið styrkur fyrir störfin þar. Gríðarlegu máli skiptir að Fjármálaeftirlitið sem gegnir lykilhlutverki í að fylgja eftir trúverðugleika íslensks fjármálamarkaðar sé styrkt. Sérlega þarft er að huga að orðum Bjarna Ármannssonar bankastjóra sem leggur áherslu á að þarna þurfi að bæta úr.