131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[19:00]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg það yfirleitt ekki í vana minn að gefa ræðum einkunn en í þessu tilviki var ekki undan því vikist.

Ég vil einnig segja og sagði það í ræðu minni áðan að sá texti verður seint skrifaður, ef nokkurn tíma, sem ekki má túlka á mismunandi vegu, (PHB: Það er skoðun þín.) sá texti verður seint ef nokkurn tíma skrifaður. Það var það sem ég benti hv. þingmanni á áðan, vegna þess að hv. þingmaður fer alla þessa leið og í allri þeirri þoku kemst hann að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að leggja niður embætti forseta Íslands af því að í stjórnarskránni megi finna ákvæði sem ekki eru praktíseruð nákvæmlega eins og þar segir.

En hv. þingmaður skautar fram hjá því að stjórnarskráin segir annars staðar hvernig með þetta vald skuli farið. Og reyndar kom það fram hjá hv. þingmanni hér í lokin, þá kom kannski kjarni málsins, að eftir standi málskotsrétturinn. Auðvitað stendur líka eftir að veita stjórnarumboð og síðan að veita Íslandi forustu í ýmsum málum eins og viðskiptaferðum, samskiptum við erlend ríki o.s.frv. Auðvitað stendur hellingur eftir.

En ég segi, virðulegi forseti, að það hefði mátt hefja þessa umræðu á allt öðrum forsendum en, með leyfi forseta, einhverjum popúlískum hugmyndum sem ganga út á að þar sem embætti forseta Íslands sé fyrst og fremst einhver veisluhöld og að mæta til veislu sem efnt er til eða ekki er efnt til, það er röksemdafærsla sem ekki gengur upp.