131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálafyrirtæki.

55. mál
[19:11]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Nú erum við að ræða málefni sparisjóðanna og það virðist vera árlegur atburður að menn ræði lög er varða sparisjóðina. Sparisjóðirnir eru mikilvægar fjármálastofnanir sérstaklega á landsbyggðinni. Það mál sem við ræðum nú tengist að vissu leyti því máli sem var rætt fyrr í dag hvað varðar Fjármálaeftirlitið, hvort því væri betur varið ekki undir ráðherra heldur hjá þinginu eins og t.d. Ríkisendurskoðun.

Þetta mál tengist málefnum Sparisjóði Hólahrepps í Skagafirði. Staðreyndin er sú að margir í Skagafirði telja einmitt að Fjármálaeftirlitið hafi ekki verið hlutlaust hvað varðar þetta málefni og hafi túlkað lög með hlutdrægum hætti, þ.e. dregið taum aðila sem tengdir eru Kaupfélagi Skagfirðinga sem hafa viljað komast yfir Sparisjóð Hólahrepps við breytingu á honum í hlutafélag. Um það er tekist og ég efa að við eðlilegar aðstæður væri þörf á þessum breytingum, þ.e. ef Fjármálaeftirlitið væri í raun hlutlaust. En vegna þess hve menn telja að Fjármálaeftirlitið sé hallt undir ráðherra og ýmis öfl sem tengd eru Framsóknarflokknum þurfi að fá fram vilja þingsins og breyta lögunum.