131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:32]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar tilkynningar sem hæstv. forseti las upp áðan um að hæstv. menntamálaráðherra sé utan þings og hafi tekið inn varamann vil ég fara fram á það að mál sem er á dagskrá þingsins síðar í dag, um afnám laga um Tækniháskóla Íslands, verði frestað, verði tekið á dagskrá og frestað þar sem þetta er eitt af stærri menntamálum sem hafa komið fyrir Alþingi um nokkurra missira skeið. Í því er t.d. lagt til að hinn opinberi skóli verði lagður inn í einkarekinn skóla sem verður einkahlutafélag en ekki t.d. sjálfseignarstofnun. Þarna er um mjög margar stórpólitískar spurningar að ræða. Þetta mál hefur verið rekið af hæstv. menntamálaráðherra fram að þessu og mjög óeðlilegt í alla staði að málið verði rætt við 2. og jafnvel 3. umr. og afgreitt frá Alþingi í fjarveru hæstv. menntamálaráðherra sem ber alla faglega ábyrgð á málinu.

Ég tel það algjörlega óréttlætanlegt að svo þurfi að hátta til í skipulagi þingsins og fjarvistum hæstv. ráðherra að þetta stórpólitíska menntamál sem tekur til bæði einkareksturs í skólakerfinu og akademísks frelsis hinnar nýju skólastofnunar skuli þurfa að verða rætt og afgreitt frá Alþingi í fjarveru hæstv. ráðherra sem ber alla ábyrgð á málinu. Fer ég þess því eindregið á leit við hæstv. forseta að hann fresti því og taki það af dagskrá þar til hæstv. ráðherra hefur tekið sæti á Alþingi að nýju eða er til taks á landinu þannig að hæstv. ráðherra geti tekið þátt í umræðum um málið og svarað fyrir allar þær stórpólitísku spurningar sem vöknuðu við tilurð þess.