131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:34]

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Ráðherra — forseti ætlaði ég að segja. Auðvitað má að vísu segja að gera megi marga menn úr þeim sem situr hér í stólnum, eins og sagt var um fornkappa, en við skulum hafa hann þá einn í einu og það er núna forseti. Ég biðst velvirðingar á mistökunum.

Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa komið í þessa umræðu um fundarstjórn forseta. Þó að það sé alla jafna þannig að þingið hafi auðvitað mál á forræði sínu, sem betur fer, eftir að ráðherra hefur mælt fyrir því í 1. umr. er þetta mál þannig vaxið að eðlilegt er að ráðherra, sú sem flutti málið sjálf, sé viðstödd umræðuna. Það stafar annars vegar af því að flutningsræða ráðherra fyrir málinu á sínum tíma var ákaflega rýr að vöxtum og svörin lítil við þeim spurningum sem fram voru færðar og hins vegar af því að við rannsókn málsins í nefnd á milli 1. og 2. umr. hefur ýmislegt komið í ljós sem ráðherra verður að gjöra svo vel að svara.

Eins og ég treysti hæstv. umhverfisráðherra Sigríði Önnu Þórðardóttur til að svara til um þau efni sem hún er spurð um þegar hún flytur hér mál hef ég ákveðnar efasemdir um að hún geti svarað þeim spurningum sem upp koma núna við þessa 2. umr. Ég er heldur ekki viss um það, forseti, að ráðherra haldist í salnum því að þegar hæstv. umhverfisráðherra var um daginn beðin að sitja hér yfir umræðu um vatnalög vegna þess að það kæmi því ráðuneyti og skrifstofu hennar og embætti mikið við, þó að það væri flutt af hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sat ráðherrann hér góða stund en svaraði ekki þeim spurningum sem beint var til hennar og var síðan farin löngu áður en umræðu lauk. Ég vil þá gera sérstakar fyrirspurnir um úthald og svarhæfni þess ráðherra sem hér gegnir störfum fyrir hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Heppilegast væri, forseti, að fresta einfaldlega umræðunni þangað til hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, er komin heim úr sinni gríðarlega mikilvægu ferð eða fjarveru sem nú stendur yfir og ég veit ekkert um.