131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:47]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Það hafa verið langar umræður í dag og kannski ekki beint um það atriði að afnema lögin sjálf, heldur í rauninni hvað taki við eftir það og er það eðlilegt, enda hefur framhaldið verið að mótast síðustu vikur og ekki síst í ljósi þess að hv. menntamálanefnd hefur farið fram á skýr svör við ýmsum spurningum.

Hv. formaður menntamálanefndar, Gunnar Birgisson, fór hér yfir nefndarálit meiri hlutans og ætla ég ekki að endurtaka það en vil þó ítreka nokkur atriði.

Þegar frumvarpið kom fyrst fram hafði ég einkum áhyggjur af þrennu: frumgreinadeildinni, heilbrigðisgreinunum og tæknifræðinni.

Í fyrsta lagi varðandi frumgreinadeild þá er ljóst og liggur fyrir að nýr háskóli mun sinna náminu líkt og Tækniháskóli Íslands hefur gert. Allir gestir sem komu fyrir nefndina ræddu mikið um mikilvægi frumgreinadeildarinnar, að hún yrði vistuð í hinum nýja háskóla en færi ekki inn í framhaldsskólana. Fulltrúi Samtaka iðnaðarins, Ingi Bogi Bogason, talaði til að mynda um að frumgreinadeildin ætti eftir að eflast í hinum nýja skóla og samstarf við fræðslustofnanir í atvinnulífinu yrði eflt. Hann notaði þau rök í málinu að deildin væri brú yfir í háskólanám og því eðlilegra að hafa hana innan hins nýja skóla en ekki t.d. í iðnskóla. Deildin verður án gjalda og hefur stjórn skólans komist að samkomulagi við nemendur deildarinnar um að þeir fái fyrstu tvö árin gjaldfrí þegar þeir komast upp á háskólastigið en greiði skólagjöld síðasta árið í því námi. Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að nemendur virðast sáttir við þá lendingu og ég tel það vera fyrir öllu.

Varðandi heilbrigðisgreinarnar þá bárust nefndinni svör þar sem fram kom að námið í meinatækni og geislafræði muni flytjast til Háskóla Íslands. Ég tel það mjög jákvætt og það er mikill vilji allra aðila til þess að sá flutningur gangi sem best fyrir sig og þá ekki síst starfsfólksins vegna. Það er ljóst að mikil samlegðaráhrif munu nást fyrir námið þegar það flyst í læknadeildina.

Nefndarmenn höfðu einna mestu áhyggjurnar af tæknifræðináminu, enda mikil áhersla á að efla það nám. Ég skynja það svo að ein af meginforsendum þessarar sameiningar sé einmitt að efla tæknifræðina. Ég tek mark á orðum rektors Tækniháskóla Íslands, Stefaníu Karlsdóttur, þar sem hún segir að hún treysti því að skilningur sé til staðar hjá stjórnendum hins nýja skóla á því að efla stöðu tæknifræðinnar. Einnig segir Guðfinna Bjarnadóttir, rektor hins nýja skóla, að mikil áhersla verði lögð á tæknifræðinámið og ekki síst með því að bjóða í fyrsta sinn upp á framhaldsnám í tæknifræði.

Í þessu ljósi tel ég afar mikilvægt að hafa fengið hér fram yfirlýsingu menntamálaráðuneytisins, en þar kemur fram að stefnt sé að því að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.

Ég er þeirrar skoðunar að skoða beri kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum. Mér finnst að þetta ætti að geta gengið fljótlega, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga menntamálaráðuneytisins. Mér finnst brýnt að slíkt nám sé einnig í boði í ríkisreknum háskóla, enda er samkeppni um framboð greina eitt af því besta sem hefur hent margar greinar sem ekki bjuggu við samkeppni áður. Ég vil því hvetja ríkisrekna háskóla til að hefja undirbúning og sækja um að fá að bjóða upp á tæknifræðinám hið fyrsta.

Mér finnst að í þessari umræðu sé líka gott fyrir okkur að íhuga fyrir hvaða aðila það komi sér best að efla tæknifræðinám en það er einmitt atvinnulífið og nákvæmlega þeir aðilar sem eru bakhjarlar hins nýja skóla.

Það hefur komið fram í máli ýmissa að þeir eru tortryggnir út í hið nýja fyrirkomulag. Það er náttúrlega ljóst af umræðunni sem átt hefur sér stað um rekstrarform hins nýja skóla að stjórnvöld eiga eðlilega að sinna eftirliti sínu með slíku félagaformi. Ég velti því upp hér hvort ekki sé hægt að slá á þá tortryggni ef menn vita til þess að eftirlitið er virkt og ráðuneytið fylgist með því að samþykktum sé ekki breytt. Það er alveg ljóst að þetta eftirlit er tryggt í kennslusamningi og á það helst við um gæði, námsframboð og fleira.

Virðulegi forseti. Á heildina litið efast ég ekki um að þessi sameining mun verða til þess að efla verk- og tæknifræðinám enn frekar og þar skiptir samvinnan við atvinnulífið meginmáli. Ég ítreka það að þeir sem vinna málið áfram líti á nefndarálitin og geri sér grein fyrir þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í þinginu um málið. Ég held að óhætt sé að fullyrða að við viljum öll efla verk- og tæknifræðinám í landinu en okkur greinir kannski á um aðferðir. Ákveðnar leiðir hafa verið ákveðnar og leggur meiri hluti menntamálanefndar blessun sína yfir þær. Hins vegar er ljóst að fínpússa þarf ákveðin atriði og hægt er að nefna sem dæmi aðkomu nemenda og starfsmanna að stjórnun skólans og nefndarmenn sem sóttu fundi í nefndinni vita að við í meiri hlutanum lögðum áherslu á það atriði.

Fram hefur komið þrýstingur frá nemendum og kennurum að klára málið, enda erum við að tala um 2.500 manns sem eru í óvissu. Ekki hefur verið unnt að kynna skólann fyrir næsta vetur og fólki þykir eðlilega óþægilegt að vera í þessari óvissu. Mælum við því með að málið klárist á þessu stigi.