131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:55]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrra atriðið. Já, ég tel æskilegt að koma á tæknifræðinámi annars staðar og þá legg ég áherslu á ríkisrekinn háskóla eins og ég sagði áðan, ég hvatti ríkisrekna háskóla til þess að hefja undirbúning þess hið fyrsta. Við vitum náttúrlega ekki um hvaða ríkisháskóla ætti að vera að ræða, en kannski væri eðlilegt að það væri Háskóli Íslands, enda verkfræðideild þar til staðar og hægt að bjóða upp á tæknifræðinám. Ég vil ekki útiloka aðra, ég veit ekki hvaða metnað Háskólinn á Akureyri hefur.

Varðandi afstöðu til skólagjalda er það tíundað í nefndaráliti meiri hlutans að þetta er skoðun sem kemur fram í svari sem nefndin fékk. Þetta er ekki skoðun meiri hlutans, heldur svar sem barst nefndinni.