131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

513. mál
[12:27]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa umræðu. Þetta mál á sér ýmsar hliðar, m.a. þá að núgildandi reglur um rétt námsmanna til húsaleigubóta vinna gegn sameiningu sveitarfélaga, það er ein hlið þessa máls.

Það er rétt sem hv. þingmaður hefur hér vakið athygli á, félagsmálaráðuneytinu hafa borist áskoranir um breytingar í þessu efni, m.a. frá Ísafjarðarbæ og raunar einnig frá námsmönnum í Skagafirði.

Starfshópur sá sem ég nefndi hér áðan hefur verið að störfum frá því í október 2004 til að greina málið og ég vonast til þess að niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir innan skamms, vonandi á næstu vikum, og þá verði málinu hraðað sem kostur er. En eins og ég minntist á áðan eru ákveðnir ókostir við það líka að breyta þessu kerfi, eftirlit verður ómarkvissara og hætta á misnotkun vafalaust meiri. Það er nokkuð sem við verðum að horfast í augu við og reyna að sníða agnúana af.