131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:18]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni fyrir að koma með góða lausn á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á fundi á Suðurnesjum um daginn. Hann tilkynnti þar að ákveðið hefði verið að bjóða út tvöföldun Reykjanesbrautar í einu lagi. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla. Þetta er mikilvæg samgöngubót, ekki aðeins fyrir Suðurnesjamenn heldur alla þá sem um þennan veg aka.

Ég vil taka undir með ráðherra með að það á alltaf að aka eftir aðstæðum. Hraðinn er oft allt of mikill. Eins og kom fram hjá ráðherra verða flest slys vegna þess að ekki er ekið eftir aðstæðum og oft allt of hratt miðað við bestu aðstæður.

Ég vil líka taka undir það að gefa þyrfti betri viðvaranir áður en vegarkaflar versna, sérstaklega á þjóðvegum landsins.