131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:04]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á því að segja frá því að tafir sem orðið hafa á því að þessi fyrirspurn kæmist á dagskrá er fyrirspyrjandanum að kenna en ekki hæstv. umhverfisráðherra sem hefur staðið sig eins og sýslumenn eiga að standa sig og var tilbúin með svar við þessari fyrirspurn aðeins viku eftir að hún var lögð fram. Þetta segi ég af því að við erum stundum að væla, þingmenn, yfir því að ráðherrar standi sig ekki nógu vel í svörum.

Í öðru lagi vil ég segja að sennilega hefði átt að efna til stærri umræðu um þetta mál því að á því eru margar hliðar og ýmsir skafankar sem er bæði fróðlegt og reyndar líka skemmtilegt að fara í þó að tilefnið veki ekki mikla skemmtun.

Fyrirspurnin fjallar um svartfugl fyrir Norðurlandi en í raun og veru hafa síðan og áður verið fréttir miklu víðar að, frá Vestfjörðum, Reykjanesi og Vestmannaeyjum. Það eru líka fréttir frá öðrum stöðum á hafsvæði okkar af hordauðum svartfugli, hruni í svartfuglsstofninum að því er virðist frá Noregi. Það má minna á frétt frá Þorvaldi Friðrikssyni, fréttamanni í Ríkisútvarpinu, fyrir svo sem eins og tveimur vikum um Skotland og Hjaltland en þar hafa menn aldrei séð neitt þvílíkt, að sögn. Þar deyja kríur, teistur og skúmar en hjá okkur reyndar aðrar tegundir tvær samkvæmt frétt í Morgunblaðinu með upplýsingum frá Ólafi Nielsen og Sigurfinni Jónssyni á Sauðárkróki, langvía og stuttnefja.

Það á ekki að rasa að ályktun um þessi mál. Stofnar hafa áður tekið dýfur, það þekkjum við á Íslandi. Við höfum oft ekki kunnað að skýra það en fyrsta skýringin sem hér er nefnd í fréttunum frá Noregi, Hjaltlandi og Skotlandi, frá Bretlandseyjum, er sú að þetta sé hugsanleg afleiðing af hlýnun sjávar. Ef það er svo er það alvarlegt og það er reyndar ein fyrsta afleiðingin sem við sjáum sérstaka við Ísland af þeirri þróun. Ég ætla ekki að álykta sem svo en það er skýring að fæða fuglsins sé ekki nógu mikil vegna þess að kuldaskilin frægu sem eru uppspretta gróskunnar í lífríkinu í kringum Ísland séu að færast norðar og þess vegna nái fuglinn ekki að éta þessa fæðu við landið þar sem hann þarf að halda sig.

Ég hef líka frétt af því að m.a. trillukarlar á Ströndum telji að þetta sé hugsanlega einhver veiki í fuglinum af því að þeir sjá hordauðan fugl en líka fugl sem ágætlega er staddur. Ég hef ekki meiri spurnir af því. Jón Kristjánsson fiskifræðingur spyr í orðsendingu til mín hvort fiskurinn geti verið að aféta fuglinn, að við höfum hér ranga veiðistjórn og það sé of mikið af fiski á ákveðnum aldri sem síðan drepist innbyrðis og fuglinn sé þáttur í þeirri keðju.

Margar skýringar koma til greina og ég hlakka til að heyra svör hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurninni.