131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[11:00]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég endurtek þakkir til þeirra sem hefja umræðu um þetta mál og þingmanna fyrir að taka þátt í henni. Flestar ræðurnar voru með athyglisverða og jákvæða punkta, a.m.k. að hluta til, en svo voru auðvitað fluttar ræður sem mundu væntanlega verða kallaðar furðuræður hvar sem er í heiminum, og mundu hvergi náttúrlega heyrast. Ég ætla ekki að fara yfir þær hérna, (Gripið fram í.) ég get bara ekki hugsað mér það. Þín ræða, hv. þingmaður, var reyndar ekki ein af þeim, aldrei þessu vant. (Gripið fram í: Nú?) Það hefur stundum komið fyrir að hv. þingmaður flytji furðuræður en hann gerði það ekki núna í þessu sambandi. Ég gæti svo sem nefnt þær ræður en ég ætla að geyma mér það.

Hins vegar varðandi hugtökin sem menn nefna, samanber eins og að það sé borgarastyrjöld í landinu, vara ég menn við því að nota slík hugtök. Það er ekki borgarastyrjöld í landinu, það er ekki rétt. Við vitum það, og kosningarnar sanna það, að þeir sem börðust gegn kosningunum eru að berjast gegn frelsinu í Írak. Það er þröngur hópur hryðjuverkamanna. Stór hluti af þeim er aðsendur, við vitum það, og stór hluti kemur úr röðum kvenréttindafrömuðarins Saddams Husseins sem við heyrðum um áðan. Við þekkjum það.

Líka er spurning um hugtakið hernám. Nú liggur það fyrir, samkvæmt ályktunum Sameinuðu þjóðanna, að alþjóðlega herliðið sem er í Írak verður að hverfa á brott eigi síðar en um næstu áramót nema írakska ríkisstjórnin biðji það að vera áfram, og fyrr ef hún biður það um að fara. Það þýðir að hér er ekki um hernámslið að ræða. Þetta er lið sem er þarna í umboði og á valdsviði Sameinuðu þjóðanna. Þetta er það sem eftir stendur.

Að öðru leyti þakka ég þessa umræðu. Auðvitað er það svo að margir hér, rétt eins og alls staðar annars staðar í heiminum, fagna þessum stórkostlega merkilega viðburði, frjálsum kosningum í Írak, sem er auðvitað efni sem er miklu merkilegra til umræðu en sum þau önnur efni sem hér hafa verið til umræðu lengi.