131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:57]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get að sínu leyti tekið undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að saga síðustu aldar hafi verið saga stéttabaráttu, a.m.k. fyrri hluti þeirrar aldar. Ég get alveg tekið undir það og ég hef kynnt mér þá sögu ágætlega. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um það að auðvitað er mikilvægt að fólki verði gert kleift að lifa með reisn í þjóðfélagi okkar. Það er enginn á móti því. Ég er ekki á móti því. Og flutningsmaður frumvarpsins er ekki á móti því.

Hv. þingmaður segir að launamenn verði að eiga möguleika á því að taka saman höndum og berjast fyrir réttindum sínum eða eftir atvikum að verja þann rétt sem áunnist hefur.

Ég er alveg sammála því. Þetta frumvarp mun engu breyta um það. Menn geta eftir sem áður stofnað sitt sameiginlega félag til að berjast fyrir hagsmunum sínum gegn atvinnurekendum. Þarf að leiða það í lög? Þarf að leiða félagaskylduna í lög, að menn verði að koma saman í einhverju tilteknu félagi til að berjast sameiginlega fyrir hagsmunum sínum? Auðvitað ekki. Ef menn sjá sér hag í því að koma saman og berjast sameiginlega fyrir hagsmunum sínum þarf slík félagaskylda ekkert að vera lögbundin. Það er algjörlega fráleitt.

Ég verð líka að segja að ég hef orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með yfirlýsingar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi þessa millileið sem ég nefndi. Ég vil taka það fram að í henni felst engin viðurkenning af minni hálfu á réttmæti félagaskyldu. Ég tók fram að ég er á móti því að menn séu skyldaðir til aðildar að stéttarfélögum eða hvers kyns félögum sem þeir vilja standa fyrir utan. En að það sé nauðsynlegt að skylda það í lögum að starfsmenn hins opinbera greiði hluta af launum sínum til þess að starfrækja sumarbústaði t.d. í Munaðarnesi í Norðurárdal. (ÖJ: Hefurðu verið þar?) Er það nauðsynlegt? Já, ég hef verið þar oft, hv. þingmaður. (ÖJ: Á kostnað opinberra starfsmanna?) Á kostnað opinberra starfsmanna, já. Mér finnst óþarfi að lögbinda slíka greiðsluskyldu. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður getur ekki tekið undir það með mér að félagaskylda að þessu leyti sé óþörf.