131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að nota tækifærið til að óska þingheimi og þjóð til hamingju með þann áfanga sem náðist í gær þegar Kyoto-bókunin varð að alþjóðlegum lögum. Hún gekk í gildi þrátt fyrir erfiða fæðingu og mikla erfiðleika við að koma henni almennilega í kring en við skulum vona að hún lifi og dafni og eigi eftir að verða til þess að snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á losunarmálum, ekki hvað síst í vestrænum iðnaðarríkjum.

Nú hefur það verið uppgötvað á Íslandi að losunarmál okkar eru ekki einföld og ekki öll eins og við höfum haldið þau vera. Í ljós hefur komið í nýrri rannsókn vistfræðinganna Hlyns Óskarssonar og Jóns Guðmundssonar frá umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hafa verið að rannsaka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá þurrlendi og mýrlendi í Borgarfirði, að framræst votlendi og rofið land lætur frá sér gífurlega mikið af gróðurhúsalofttegundum. Með því að yfirfæra rannsóknarniðurstöðurnar yfir á allt landið má segja að niðurstöður þeirra Hlyns og Jóns bendi til þess að allt að 18 millj. tonna af gróðurhúsalofttegundum streymi út í andrúmsloftið frá framræstum mýrum og sárum í gróðurþekjunni. Það er gífurlega alvarlegt mál því að það er um sexföld losun Íslendinga frá öðrum ferlum í dag.

Talsvert hefur verið rætt um þetta mál í fjölmiðlum, m.a. við skrifstofustjóra umhverfisráðuneytisins, Huga Ólafsson, sem hefur haldið því fram að sum losun frá landbúnaði og landnotkun sé tekin inn í bókhaldið en ekki losun vegna löngu liðinna aðgerða mannsins eins og framræsla mýra. Ég verð að viðurkenna að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að umhverfisráðuneytið skyldi ekki strax tala skýrt í þessum efnum. Ég tel að hér sé á ferðinni atriði sem við verðum að taka alvarlega og það sé nauðsynlegt fyrir okkur að setja ákveðnar reglur um hvað við ætlum að taka inn í losunarbókhald okkar og hvað ekki. Við vitum að það gilda ákveðnar reglur um bindingu samkvæmt Kyoto-samningnum. Hann gerir ráð fyrir talsverðri bindingu í skógrækt og landgræðslu. Við vitum líka að loftslagssamningurinn segir að það eigi að taka tillit til allrar losunar gróðurhúsalofttegunda og samningurinn undanskilur ekki losun vegna landnýtingar. Ég sé ekki betur en að framræsla mýranna, þótt löngu liðin sé, sé hluti af landnýtingu okkar. Það nægir auðvitað að minna á að oftar en einu sinni var varað við þeim aðgerðum. Frægur er pistillinn um hernaðinn gegn landinu sem Halldór Laxness skrifaði á sínum tíma og var birtur 1971. Mig langar, með leyfi forseta, að fá að vitna til orða hans þar sem segir:

„Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur?“

Nú vil ég meina, virðulegur forseti, að spurning skáldsins um hvort ekki eigi bara að moka ofan í þetta aftur sé í fullu gildi í dag. Þess vegna hef ég ákveðið að leggja fyrir hæstv. umhverfisráðherra eftirfarandi spurningar sem fjalla um aðgerðir stjórnvalda til að draga úr losun koltvísýrings, ekki hvað síst vegna nýbirtra niðurstaðna sem ég hef rakið í máli mínu. Ég spyr:

Hyggjast stjórnvöld grípa til aðgerða til að takmarka losun koltvísýrings á framræstum mýrum og illa förnu landi? Munu stjórnvöld hafa frumkvæði að frekari rannsóknum á þessum tilteknu koltvíoxíð-uppsprettum? Hversu stór eru þau votlendissvæði sem framræst voru á öldinni sem leið og hafa einhver þeirra votlendissvæða verið endurheimt?

Að lokum: Í ljósi þess að loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna tekur til allrar losunar gróðurhúsalofttegunda, þar með talið losunar vegna landnýtingar, hyggjast stjórnvöld þá taka hinar nýuppgötvuðu uppsprettur með í bókhald Íslands yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda?