131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[14:22]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu þótt það væri fullt tilefni til að sjálfsögðu vegna þess að við erum að tala hér um grundvallarmannréttindi og við erum að tala um grundvöll lýðræðissamfélagsins.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er sú að ég vildi víkja einu orði að einum þætti sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals í ræðu hans fyrir stundu, meintum vilja stjórnarandstöðunnar til að ganga gegn samfélagslegum sjónarmiðum og viðhorfum þegar öryrkjar væru annars vegar og hefði komið fram í öryrkjamálinu svokallaða. (Gripið fram í: … engir einstaklingar.) Einstaklingshyggja, að við hefðum verið að beita okkur í þágu einstaklingshyggju, var það ekki svoleiðis? Já, á sama hátt væntanlega og ef við hefðum óskað eftir því að atvinnuleysisbætur yrðu tengdar við kaup eða kjör maka hins atvinnulausa. Þá væri það væntanlega einstaklingshyggja líka? (Gripið fram í: Þvert á móti.) Þvert á móti? Það sem við höfum haldið fram og héldum hér fram í langri umræðu um öryrkjamálið svokallaða var að við vildum aftengja kjör öryrkjans kjörum makans og stuðla að því að hann lifði sem sjálfstæður einstaklingur og með sjálfstæðar forsendur. Einstaklingshyggja, segir hv. þingmaður, og þarna var ég að draga upp samlíkingu á milli öryrkjans annars vegar og hins atvinnulausa hins vegar.

Ef við förum með þetta út í atvinnulífið og tökum t.d. þingmann — ég veit ekki hvernig hv. þm. Pétur H. Blöndal mundi líta á það ef laun þingmanna tækju mið af kjörum makans, þætti honum það gott? Fyndist honum það til framfara? (PHB: Ég er einstaklingshyggjumaður.) Hann er einstaklingshyggjumaður, já, já. Það er þetta, hæstv. forseti, sem ég á við þegar ég tala um mótsagnir í málflutningi manna. Hv. þingmaður kýs að kalla það einkunnagjöf. Ég er bara að vísa á mótsagnir sem fram koma hjá mönnum í málflutningi þeirra.

Við höfum verið að leggja áherslu á það að bæta kjör atvinnulauss fólks og öryrkja og það að skilgreina þetta sem baráttu fyrir einstaklingshyggju er svo öfugsnúið að ólíkindum sætir. En þetta er einstakur hæfileiki sem hv. þingmaður hefur til að taka það sem stendur upprétt og snúa því á haus.