131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:14]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skipt um skoðun á Samkeppnisstofnun, því ef ég man rétt er ekkert óskaplega langt síðan það lá fyrir að hv. þingmaður teldi réttast að leggja stofnunina niður. Auðvitað er ekkert að því að menn skipti um skoðun og væntanlega kemur í ljós hvort hv. þingmaður hafi gert það.

Ég get ekki séð að rök hv. þingmanns fyrir því að ekki hafi verið um að ræða fjárvöntun hjá Samkeppnisstofnun hafi verið mjög sannfærandi. Við höfum séð það á undanförnum árum og ekki langt síðan að það varð ónýtt mál hjá Samkeppnisstofnun vegna þess að hún hafði ekki krafta til að klára þá rannsókn sem var á ferðinni þegar hún var að rannsaka tryggingafélögin. Það hefur ítrekað komið fram að stofnunin hefur ekki haft fjármuni til að vinna að málunum með þeim hætti sem þeir sem þar hafa stjórnað húsum hafa talið þurfa.

Mér finnst það ekki vera rök í málinu þó stöðugildum hafi ekki fjölgað en fjármunir aukist meira en stöðugildin, því að í margri starfsemi í landinu hafa orðið miklar breytingar. Menn kaupa alls konar þjónustu að og það þarf ekki endilega að ráða alltaf nýtt fólk til þess að vinna þau verkefni sem þarf að vinna. Það er því ekki endilega beint samband á milli fjárnotkunar í fyrirtækjum eða stofnunum og mannfjöldans sem þar vinnur, fyrir utan að launakostnaður spilar líka inn í.