131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kvennahreyfingin á Íslandi.

56. mál
[17:05]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni hvað varðar tengsl ráðuneytanna við grasrótina að það liggi kannski ekki í augum uppi að slík tengsl eigi að vera til staðar eða að styrkja þurfi þau eða efla eitthvað sérstaklega. Það liggur ekki í augum uppi. Á hinn bóginn vil ég meina að það yrði jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna styrkur ef þeir gera sér grein fyrir því eða vita á hverjum tíma hvað grasrótin er að vinna í þessum efnum. Ég held að ákveðið samtal á milli ráðuneytanna, starfsmanna ráðuneytanna og þeirra sem starfa í grasrótinni að viðkomandi málefnum geti gert ráðuneytin ábyrgari og upplýstari um það sem er í gangi í grasrótinni hjá málaflokknum.

Ég held að þetta sé líka spurning um að koma á virku samtali þannig að ráðuneytin verði ekki í einhverjum fílabeinsturni og átti sig ekki á því að þau eru auðvitað bandamenn þeirra sem vinna í grasrótinni. Það kann að vera að við séum bláeygar, flutningsmenn tillögunnar, í þessum efnum en mér finnst svo þýðingarmikið að það komist af stað öflugt skapandi samtal á milli grasrótarinnar, ekki bara í jafnréttismálum heldur almennt í almannasamtökum, að það sé virkt, opið, skapandi samtal á milli grasrótarinnar og þeirra sem hafa umsýslu með málaflokknum í umboði t.d. ráðherranna.

Ég held að það hafi fyrst og fremst verið slíkar hugsanir sem við vorum að reyna að koma hér í orð og reyna að skýra með þessari tillögu. Ég held að það væri mjög gaman ef félagsmálanefnd færi einmitt ofan í saumana á þessu og skoðaði kannski frá víðum sjónvinkli þau atriði sem upp hafa komið í umræðunni því það kann vel að vera að það megi bregða á þetta öðrum gleraugum en þeim sem við höfum gert sem erum flutningsmenn.

Ég geri ekki ráð fyrir að koma aftur í ræðustól þannig að ég ætla að ljúka máli mínu með því að þakka góðar undirtektir og láta í ljósi þá von að félagsmálanefnd taki þetta málefni til virkrar umfjöllunar.