131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Reiðhöll á Blönduósi.

[15:10]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Laugardaginn 19. febrúar segir Morgunblaðið frá kynningarfundi hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssonar um störf nefndar um hestamennsku á landsbyggðinni. Meðal tillagna nefndarinnar er að reist verði reiðhús, þ.e. reiðhallir eða reiðskemmur, á Akureyri, í Borgarfirði, Hornafirði, Snæfellsbæ, Ísafirði og Fljótsdalshéraði.

Í síðdegisþætti í gær heyrði ég hæstv. landbúnaðarráðherra fjalla um þessi mál og þar sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„Það fara miklir peningar í sprotafyrirtæki og ríkið tekur þátt í ákveðinni þróun. Það er enginn vafi að þetta eru auðvitað aðalstaðir þessara byggðarlaga sem verið er að tala um sem mundu þá svo létta róðurinn og skapa meiri hamingju á þeim svæðum.“

Síðar segir hann í sama viðtali: „Þær eiga að vera nokkrar, þ.e. kannski vantar nokkrar nú þegar ef það er einn þriðji eða króna á móti krónu. Ég veit nú ekkert um það. Þetta á auðvitað eftir að útfæra alfarið þannig að ég held að þetta séu nú ekkert miklir peningar í sjálfu sér en ég held að þeir skili sér til byggðanna, unga fólksins, skapi það sem mikilvægt er, að fólk sem sest frekar að í byggðinni og ég bara minni á það að þetta eru menningarhús, ekkert síður en tónlistarhúsin og menningarhúsin sem menn ætla að byggja á landsbyggðinni og byggja hér í höfuðborginni.“

Fyrir fáeinum árum var reist reiðhöll á Blönduósi og við vígsluna voru íbúum þar gefin fyrirheit um stuðning sem hefur ekki komið til framkvæmda. Ég spyr því hæstv. landbúnaðarráðherra: Má vænta þess nú að Blönduósingar fái loksins stuðning til sinnar reiðhallar, og ég spyr jafnframt: Hvað þurfa Blönduósingar að aðhafast til að það verði tryggt að staðið verði við loforð sem þeim hafa verið gefin?