131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:48]

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um einkahlutafélagavæðingu Orkuveitu Húsavíkur. Ég mælti fyrir því máli áðan fyrir hönd iðnaðarnefndar. Umræðan hefur aftur á móti kannski að litlu leyti snúist um þá formbreytingu sem við erum að gera á Orkuveitu Húsavíkur og farið út um víðan völl.

Ef ég ætti að tjá mig um öll þau efnisatriði sem hafa komið fram í mörgum ræðum hér yrði ræðutími minn alllangur. Ég ætla að reyna að afmarka mig við tvö efnisatriði. Í fyrsta lagi málefni Orkuveitu Húsavíkur og hins vegar um framtíðarskipan orkumála hér á landi sem hafa reyndar verið í umræðunni í dag.

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að Orkuveita Húsavíkur er glæsilegt og öflugt fyrirtæki sem heimamenn vilja efla með þeirri formbreytingu sem við leggjum hér til. Það er mikilvægt að hafa það í huga við þessa umræðu að það er ósk frá heimamönnum sjálfum, sveitarstjórnarmönnum á Húsavík, að við förum í þessa formbreytingu. Hvers vegna er verið að leggja þessa formbreytingu til? Jú, forustumenn Orkuveitu Húsavíkur telja að þetta form sé mun heppilegra til að efla og styrkja Orkuveitu Húsavíkur til framtíðar séð. Það stendur ekki til að selja Orkuveitu Húsavíkur og það hefur ekkert stjórnmálaafl í bæjarmálum á Húsavík lagt til að orkuveitan verði seld. Ég mun koma nánar að þessu einkavæðingartali í raforkugeiranum á eftir í ræðu minni.

Það vill svo til að í sveitarstjórn Húsavíkurbæjar eru sveitarstjórnarmenn í meiri hluta sem hafa hneigst til þess að vera vinstra megin í íslenskri pólitík. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið mjög ánægður með úrslit í síðustu sveitarstjórnarkosningum þar. Þar buðu margir hæfir einstaklingar sig fram og vinstri menn unnu þær kosningar. Hv. þingmaður sendir ekki framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum sem eru í sveitarstjórn Húsavíkurkaupstaðar fallegar kveðjur þegar hann talar um blámórautt bandalag. Þykja mér það heldur kaldar kveðjur til fólks sem fórnar sér fyrir samfélag sitt og vinnur að vanþakklátum sveitarstjórnarmálum. Við þekkjum það sem störfum í pólitík að það er mjög erfitt að standa að sveitarstjórnarmálum, fólk er að sinna sínum störfum ásamt því að sinna hagsmunum byggðarlaga sinna. Allt það fólk sem býður sig fram til þeirra verka gerir það af góðum hug einum og góðum ásetningi og oft er erfitt að sjá einhverjar skýrar flokkslínur þar á milli. Ég held því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi, þegar hann talar um blámórautt bandalag, kannski gerst of hvatvís í garð þess ágæta fólks sem vinnur að hagsmunum Húsvíkinga almennt.

Ég held jafnframt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætti að keyra norður í land og ræða við sitt bakland í sveitarfélagi sínu. Hann talar hér um stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og allt gott um það að segja að þeir eru stefnufastir hér, en mér sýnist í ljósi þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið af öllum bæjarfulltrúum á Húsavík að nú hrikti í stoðum baklands Steingríms J. Sigfússonar á Húsavík, því hann er á móti allri bæjarstjórn Húsavíkur í þessu máli. Það er staðreynd málsins. Hann segir að flokkur sinn standi heill í þessu máli og við gefum okkur þá að ekki fyrirfinnist margir vinstri grænir í sveitarstjórninni á Húsavík úr því sem komið er.

Það er mjög sérstakt í allri þessari umræðu þegar hv. þingmenn, sérstaklega Vinstri grænna, tala um þá formbreytingu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á ríkisfyrirtækjum á undanförnum árum, tala um einkavæðingarsinnana og allt í þeim dúr, að það eru vinstri menn á Húsavík sem beita sér fyrir þessari breytingu. Þetta er fólk sem ber hagsmuni síns byggðarlags fyrir brjósti og við styðjum Húsvíkinga í þessu máli, alla sveitarstjórn Húsavíkurkaupstaðar, en því miður eru vinstri grænir hér á móti þessari formbreytingu, á móti þeirri ákvörðun og þeirri beiðni sem Húsvíkingar hafa beðið okkur alþingismenn að liðsinna þeim í. Þetta er ekki ný breyting. Slík formbreyting hefur átt sér stað hjá öðrum orkufyrirtækjum, reyndar ekki hávaðalaust, en við stöndum með meiri hlutanum og allri sveitarstjórn á Húsavík í þessu máli.

Hæstv. forseti. Ég vil kannski segja það líka, af því hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er staddur hér, að mér líkaði ekki alls kostar ræða hans áðan. Þá á ég við hvernig hann í fyrsta lagi talar til blámórauðs bandalags norður á Húsavík og í öðru lagi til okkar samstarfsfélaganna á hv. Alþingi þegar hann talar um að við förum vælandi og grátandi og tístum í fjölmiðlum þegar við berum á torg okkar pólitísku skoðanir. Það hefur ekki gefist vel fram á þennan dag að tala niður til fólks með þessum hætti. Slíkt er ekki til vegsauka, svo mikið er víst. Ég segi það hér að ég held að hv. þingmaður ætti að bera virðingu fyrir skoðunum okkar hinna þegar við erum að móta framtíðarfyrirkomulag á raforkumarkaði sem er stærsta pólitíska úrlausnarefni dagsins í dag, eitt af stærstu verkefnum framtíðarinnar hvernig við ætlum að skipa framtíðaráherslum okkar með tilliti til nýskipan í raforkumálum. Ég ætla að áskilja mér þann rétt að segja frá mínum pólitísku skoðunum og hugsjónum hvað það varðar og mun ég nú koma að því í ræðu minni vegna þess að mikið hefur verið rætt um það, bæði í þessari umræðu og fyrr í dag.

Ég vil byrja á að fagna því að stjórnvöld horfi fram á veginn í því ástandi sem er í dag í ljósi nýskipunar á raforkumarkaðnum. Það þarf að móta það framtíðarumhverfi. Ég held að við þingmenn séum almennt sammála um að það þurfi að horfa fram á veginn. Ég get fallist á þau rök að það sé ekki skynsamlegt að ríkið eigi mörg fyrirtæki á þeim markaði er viðkemur dreifingu og sölu á rafmagni, að ríkið sé í innbyrðis samkeppni. Ég get fallist á þau rök að slíkt sé ekki hentugt. Því er það sjálfsagt og mikið fagnaðarefni að framkvæmdarvaldið ætli í þá vinnu að móta þá framtíð. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins. Að sjálfsögðu er það svo undir okkur alþingismönnum komið á endanum hver stefnan verður. Við hv. alþingismenn eigum eftir að taka afstöðu til þessara mikilvægu mála. Ég geri ekki lítið úr því. Við hv. þingmenn, margir, eigum eftir að ræða þetta mál til hlítar innan okkar stjórnmálaflokka, hlusta á rödd fólksins í landinu í þessu máli. Það á eftir að fara mikil umræða um málið í þjóðfélaginu. Því vil ég segja hér að við erum einungis að taka fyrstu skrefin í þessari mikilvægu umræðu og flokkarnir allir, stjórnmálaflokkarnir á þingi, eiga eftir að taka mjög mikla umræðu um framtíðarskipulag á raforkumarkaði.

Hæstv. forseti. Mér þykir nauðsynlegt í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í dag að bregðast við einu, sem mikil þjóðfélagsumræða hefur verið um að undanförnu, sem snertir hugsanlega sölu á Landsvirkjun. Einkavæðing Landsvirkjunar heyrum við úr þingsölum og reyndar víða í þjóðfélaginu. Sú umræða er rétt að hefjast og sú umræða á eftir að þroskast, bæði hér innan þings og utan. Hins vegar er það ekkert launungarmál og ég ætla ekkert að fara í grafgötur með það að það hefur ekki verið keppikefli okkar framsóknarmanna að einkavæða raforkukerfið. (Gripið fram í.) Það er ekki stefna Framsóknarflokksins í dag. (Gripið fram í: … Valgerðar.) Við Íslendingar framleiðum orku sem er ein sú ódýrasta í heimi.

Ég vil í tilefni af þessum frammíköllum, hæstv. forseti, segja að ráðherra ræður ekki öllu einn. Ráðherra þiggur umboð sitt frá þingmönnum. Ég veit ekki betur en (Gripið fram í.) að við þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, tölum mjög mikið um það að við viðhöldum sjálfstæði þingsins. Þess vegna finnast mér mjög merkileg frammíköllin sem ég fæ við þessa umræðu og í þeirri ræðu sem ég held hér.

Það er staðreynd málsins að við Íslendingar framleiðum mjög mikla raforku og það er mikil auðlind í okkar landi er snertir raforkuna. Raforka okkar er ein sú ódýrasta í öllum heiminum og hefur gert okkur kleift að lifa og starfa í þessu landi og það hefur styrkt samkeppnisstöðu landsins hversu lágt raforkuverð við bjóðum bæði fyrirtækjum og almenningi.

Það er þess vegna ljóst að með einkavæðingu Landsvirkjunar felst mikil hætta á að raforkuverð hækki, því það er staðreynd málsins að fjárfestar, hugsanlegir fjárfestar, munu gera arðsemiskröfu til fjárfestinga sinna og því er ljóst að raforkuverð mundi hækka eitthvað í framhaldinu. Þeir framsóknarmenn sem ég hef rætt við innan flokksins og í gegnum tíðina hafa ekki verið ginnkeyptir fyrir því að einkavæða Landsvirkjun.

Ég lýsi þess vegna yfir miklum efasemdum um einkavæðingu Landsvirkjunar, það er nóg að horfa á afdrif annarra þjóða í því samhengi sem hafa einkavætt raforkukerfið. Ég segi það hér að ég hef miklar efasemdir um það og það er ekkert í stefnu Framsóknarflokksins sem ætlar það að við munum einkavæða Landsvirkjun í framtíðinni.