131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:52]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um það að í höndum þess meiri hluta sem nú er á Húsavík er þetta kannski allt í lagi. Það er nú svo að þegar verið er að taka ákvarðanir sem þessar byggjum við á þeim grunni sem fyrir er.

En í ljósi yfirlýsinga bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um hvaða framtíðarsýn sem þeir sjá fyrir orkuver landsmanna þá tel ég að kæmust t.d. sjálfstæðismenn og framsóknarmenn til valda á Húsavík mundi verða allt önnur mynd uppi og þá mundi ég ekki treysta með sama hætti að Orkuveita Húsavíkur yrði ekki að almennri söluvöru (Gripið fram í.) í höndum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna miðað við þær yfirlýsingar sem hér hafa fallið.

Ég tek því undir þau orð hv. þingmanns að í höndum þess meiri hluta sem nú er á Húsavík er þetta sjálfsagt í lagi, og vonandi verður hann áfram, en menn eru ekki eilífir störfum, samanber t.d. yfirlýsingar hv. þingmanns þegar hann var hæstv. samgönguráðherra og sagði hér, eins og ég vitnaði í áðan, með leyfi forseta:

„Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Þetta sagði hv. 2. þm. Norðaust., þáverandi samgönguráðherra, en nú er allt annað uppi, frú forseti.