131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Auðvitað er hverjum manni það ljóst að yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra eru í besta falli vítaverður glannaskapur. Í versta falli verður það gert sem hæstv. ráðherra var að boða, sem er náttúrlega hroðaleg framtíðarsýn, að búa til einokunarrisa í orkumálum í landinu, enn stærri en fyrir er, einkavæða hann svo og selja jafnvel til útlanda og ráðstafa þar með afnotaréttinum að þeim auðlindum sem undir liggja.

Gallinn er sá að mark hefur verið tekið á hæstv. ráðherra í útlöndum. Markaðurinn neyðist til að taka það alvarlega þegar ráðherra í embætti gefur yfirlýsingar. Markaðurinn hefur ef til vill ekki áttað sig á því, sem kann að vera, að hæstv. ráðherra sé umboðslaus og landlaus, ekki síst í eigin flokki. Gærdagurinn var ekki góður fyrir hæstv. ráðherra þegar mannfall var í stuðningi við hana. Fyrstur reið á vaðið formaður þingflokks Framsóknarflokksins og sór þetta allt af sér í gær. Síðan kom varaformaður Framsóknarflokksins, hæstv. landbúnaðarráðherra, og þá tveir, þrír þingmenn, þannig að það er ekki björgulegt. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um þetta í ríkisstjórn og þetta sé allt á hugmyndastigi.

Hvað voru hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að gera með yfirlýsingum sínum? Þær hafa sannanlega skaðað Landsvirkjun. Það þýðir ekki að neita því. Það er á prenti, það er á Reuters úti um allan heim í formi tilkynningar frá Standard & Poor's um að þessi breyting hafi átt sér stað hvað varðar horfur um lánshæfismat Landsvirkjunar inn í framtíðina. Það eru skilaboð sem skipta miklu máli.

Það þarf enginn að segja mér, hvað sem hæstv. ráðherra reynir að bera sig mannalega, að Friðrik Sophusson eða stjórn Landsvirkjunar sé hamingjusöm með blaðrið í hæstv. ráðherrum.