131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:48]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. landbúnaðarráðherra ætti að beita sér sem stjórnsýslulegur umboðsmaður þessa málaflokks landbúnaðar og bænda. Til er fjöldi jarða þar sem útræðisréttur var jafnnýttur og beitarréttur. Ég er sjálfur uppalinn við það á þeirri jörð þar sem ég fæddist. Þar var jöfnum höndum róið til sjávar og beit nýtt á landi. Það var gríðarlegur styrkur í mörgum landshlutum ef hægt var að nýta þetta saman. Það er alveg hægt við núverandi kvótakerfi, þó svo það sé bölvað, með því að úthluta ákveðnum tonnafjölda á jörð, á býli, gera það að skyldu að viðkomandi yrði að búa á jörðinni og nytja hlunnindin sjálfur þaðan. Sá réttur sofnaði ef hann nýtti þau ekki sjálfur eða jörðin færi í eyði en fylgdi henni sem slíkur eins og önnur jarðargæði. Þetta finnst mér ósköp einfalt mál og ætti að vera hægt að sameinast um.