131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[14:08]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá fyrirspurn sem hér var borin fram, sem er í senn landbúnaðarmál og umhverfismál. Ég held að rétt sé að taka fram í þessari umræðu, þegar við ræðum um endurheimt votlendis, um hvaða tímamörk við erum að tala. Erum við að tala um 100 ár aftur í tímann eins og ráðherranum var tíðrætt um áður á þessum fundi? Erum við að tala um það þegar mýrlendi á Suðurlandi var skógi vaxið? Við vitum að mýrarnar á Suðurlandi eru fullar af lurkum og þá var þar ekki mýrlendi, þar var þurrt. Við vitum að þar sem skógur var í mýrum þar var það land þurrt. Þess vegna þarf að vera skýrt í þessari umræðu við hvaða tíma við erum að miða.

Það er ljóst að uppgröftur hefur verið mikill vegna landbúnaðar og við höfum fengið frjótt land vegna uppgraftar en nú sýnist mér að þeir skurðir sem grafnir voru hér á landi séu meira og minna að fyllast. Náttúran vinnur því með okkur og votlendið er að koma af sjálfu sér til baka, það er alveg augljóst.

Hér voru nefndar virkjanir. (Forseti hringir.) Það er ljóst að við lón virkjana er mikið votlendi og raki og gróður.