131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Ég tel vert að fara fljótlega að skoða í mikilli alvöru að sameina sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og skoða hvaða hagkvæmni náist fram með þeim hætti.

Ég vara þó við því að tengja þetta sölu Símans því að hún er algert sérmál. Mér finnst að sala Símans eigi í rauninni að vera á þeim forsendum að fjarskiptum landsmanna sé vel borgið í framtíðinni. Eins á einmitt að skoða það mál sem hér um ræðir út frá þeirri forsendu að við náum fram góðri stofnun sem er hagkvæmari í rekstri en þær sem fyrir eru. Margt leiðir getum að því að það muni verða með sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.