131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:36]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Viðræður hafa staðið yfir í rúmt ár milli ríkis og sveitarfélaga í tekjustofnanefnd sem starfar í tengslum við átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Mikið hefur borið á milli í þeim viðræðum en ég tel góðar horfur á að samkomulag sé að takast í nefndinni. Tillögur nefndarinnar verða í framhaldi kynntar í ríkisstjórn og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Mikil vinna hefur verið unnin í tekjustofnanefnd og á vegum eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga til að greina umfang og ástæður fyrir fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Sú vinna hefur leitt í ljós að ástæður vandans má í langflestum tilvikum rekja til óhagstæðra ytri aðstæðna á borð við erfiðleika í atvinnulífi í viðkomandi byggðarlagi og tekjusamdráttar vegna fólksfækkunar. Ríkissjóður hefur á undanförnum árum komið til móts við sveitarfélög sem glíma við fjárhagsvanda af þessum sökum með því að veita sérstakt viðbótarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Um er að ræða 700 millj. kr. á ári á tímabilinu 1999–2001 og 400 millj. kr. árin 2003 og 2004.

Án þess að ég ætli, hæstv. forseti, að greina nákvæmlega frá tilboði fulltrúa ríkisins í tekjustofnanefnd get ég þó nefnt að í því felst m.a. að árlegt 700 millj. kr. viðbótarframlag verði reitt af hendi í sama skyni árin 2006–2008.

Alls fengu 38 sveitarfélög greitt fólksfækkunarframlag árið 2004 af umræddu viðbótarframlagi, samtals 100 millj. kr. En aðrar 100 millj. kr. runnu til útgjaldajöfnunar sem allflest sveitarfélög njóta. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur verið falið það verkefni að gera tillögu um ráðstöfun þeirra 200 millj. kr. sem þá standa eftir af viðbótarframlagi síðasta árs til sveitarfélaga sem glíma við sérstakan fjárhagsvanda. Sú úthlutun mun fara fram á grundvelli reglna sem settar voru í desember síðastliðnum að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Til álita kemur að veita um tíu sveitarfélögum sértæka aðstoð með þessum hætti.

Sú aðstoð sem þarna verður veitt er á þeirri forsendu að viðkomandi sveitarfélög geri sitt ýtrasta til að hagræða í rekstri sínum og má gera ráð fyrir að þessi aðstoð muni skipta þau verulegu máli. Ástæður hallareksturs viðkomandi sveitarfélaga eru hins vegar í ýmsum tilvikum viðvarandi tekjusamdráttur án þess að mögulegt sé að draga á móti úr þeirri þjónustu sem veitt er. Fyrir vikið er ljóst að frekari breytinga er þörf til að taka varanlega á vanda þessara sveitarfélaga.

Rekstur félagslegra íbúða hefur reynst mörgum sveitarfélögum þungur í skauti og nú er á vegum varasjóðs húsnæðismála unnið að greiningu á þeim vanda. Til greina kemur að ganga á eigið fé varasjóðsins til að greiða niður hallarekstur einstakra sveitarfélaga af félagslegum íbúðum og auðvelda úreldingu húsnæðis sem ekki er fyrirséð að verði nýtt til íbúðar. Þetta er til umræðu í tekjustofnanefndinni og ég vænti þess að sátt náist um það atriði.

Það er athyglisvert að á síðasta ári voru rúmlega 30 sveitarfélög sem ekki nýttu að fullu heimild sína samkvæmt tekjustofnalögum til að leggja útsvar á íbúa sína. Þrátt fyrir að 67 sveitarfélög hafi verið rekin með halla árið 2003 var ekkert sveitarfélag, ekki eitt einasta, sem nýtti heimild í 5. mgr. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sem allar sveitarstjórnir hafa til að hækka útsvarshlutfall um allt að 10%. Menn hljóta að spyrja sig: Hvaða þörf hafa sveitarfélögin fyrir almenna hækkun útsvars þegar þau nýta alls ekki þær heimildir sem fyrir hendi eru í lögum?

Stærstur hluti tekjuvanda sveitarfélaga er að mínu mati sá að möguleikar þeirra til að afla tekna og skipuleggja þjónustu sína á sem hagkvæmastan hátt eru afar misjafnir. Ég tel raunar nauðsynlegt, ekki síst í því ljósi, að hefjast handa við endurskoðun úthlutunarreglna jöfnunarsjóðs og mun það verkefni vonandi hefjast á næstu vikum.

Hæstv. forseti. Eitt meginmarkmið átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins er að auka valddreifingu í samfélaginu og skýra verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með verkefnaflutningi. Frá upphafi var miðað við að lokatillögur um verkefnaflutning yrðu lagðar fyrir ríkisstjórn í september 2005 og er enn við það miðað. Verkefnisstjórn átaksins fundaði með sveitarstjórnarmönnum um land allt síðastliðinn vetur en þar komu fram ýmsar hugmyndir um breytingar á verkaskiptum hins opinbera. Verkefnisstjórnin vann úr þeim hugmyndum og lagði fram tillögur sínar í apríl síðastliðnum. Í þeim er megináhersla lögð á flutning velferðarverkefna frá ríki til sveitarfélaga í samræmi við þá reynslu sem hlotist hefur af reynslu sveitarfélaga af verkefninu. Þær hugmyndir hafa verið til umræðu í ríkisstjórn og er nú unnin undirbúningsvinna í þeim ráðuneytum sem málið varðar. Raunar hefur nefnd á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skilað áfangaskýrslu um flutning verkefna á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarmála til sveitarfélaganna. Niðurstöður þeirrar skýrslu gefa vísbendingar um að auka þurfi umræðu um málið meðal sveitarstjórnarmanna og síðast en ekki síst þurfa mörg sveitarfélög að stækka umtalsvert til að vera reiðubúin til að taka við svo umfangsmiklum málaflokkum.

Hæstv. forseti. Ég tel að framtíðarhorfur fyrir sveitarstjórnarstigið séu ágætar og að nú hljóti að geta náðst sættir um tillögur tekjustofnanefndar. Þetta hafa verið langar og strangar viðræður en ég trúi ekki öðru en forsvarsmenn sveitarfélaganna samþykki þær tillögur sem uppi eru á borðinu, enda til mjög verulegs tekjuauka fyrir sveitarfélögin. Þær eru settar fram á þeirri forsendu af hálfu fulltrúa ríkisins að frekari viðræður um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga eigi sér ekki stað fyrr en árið 2009, ef frá eru taldar breytingar sem leiða af breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.