131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:49]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Málflutningur hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar er með ólíkindum. Hann er að væna mig um að hafa skipt um skoðun í miðjum leik. Það er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem er núna að leggja fram breytingartillögu við breytingartillögu sem hann samþykkti fyrir aðeins örfáum dögum. Þetta er grundvallarbreyting sem opnar á það að ákveðnar EES-gerðir verði ekki þýddar. Hann talaði um 4. gr. Hún lýtur að því, eins og frumvarpið leit út í upphafi, að heimilt sé að birta eingöngu erlenda frumtexta milliríkjasamninga. Ég stend alveg við það. Ég er hlynntur þeirri heimild. En ég tel að það eigi ekki við EES-samninginn. Ég veit ekki hvort hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson áttar sig á því að EES-samningurinn er ekki eins og hver annar milliríkjasamningur. Hann er lög.

Hv. þingmaður talar um að ég sé kaþólskari en páfinn og talar um hreintrúarstefnu. En það vill nú svo til að hv. þingmaður var nú á þessari skoðun í allsherjarnefndinni og stóð fyrir breytingartillögu sem ég studdi m.a. og hún var einmitt í þá átt sem ég er að lýsa, þ.e. að EES-gerðirnar skuli ætíð vera þýddar. Seinni tíma viðbót, til komin vegna frumkvæðis embættismanna, gerir afstöðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar afskaplega skringilega því hv. þingmaður er að opna hér á leyfi bæði hjá ráðherranum og hjá löggjafanum til þess að ákveðnar EES-gerðir verði ekki þýddar. Um það snýst málið. Hann kemst ekkert hjá þeirri lagalegu skyldu sem er nú í EES-samningnum, sem er lög, þ.e. í 129. gr. sem lýtur að því að EES-gerðirnar skuli þýddar hvort sem við viljum það eða viljum það ekki. Þetta er bara skýr lagaleg skylda og við komumst ekkert hjá því.

Við höfum hins vegar svigrúm þegar kemur að öðrum milliríkjasamningum sem eru ekki lög til að hafa þá eingöngu á frumtextanum og 2. mgr. 4. gr. lýtur að því. Ég er sammála þeirri heimild. En ég set stoppmerki við þegar kemur að EES-gerðunum því þar er um að ræða lög sem hafa gildi í okkar landsrétti. Við komumst ekkert hjá þeirri skyldu. Fróðlegt væri að vita hvernig hv. þingmaður rökstyður (Forseti hringir.) það hvernig hann kemst framhjá þeirri skyldu (Forseti hringir.) sem er í 129. gr.