131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:35]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram í upphafi að þegar hv. þm. Mörður Árnason flutti ræðu sína við 2. umr., fyrir viku síðan, var ég bæði vakandi og viðstaddur, reyndar var ég viðstaddur hluta ræðunnar við sjónvarpstækið mitt á skrifstofunni en ég fylgdist með henni þar sem hv. þingmaður fjallaði fyrst og fremst um akademískt frelsi en að litlu leyti um rekstrarformið þó svo að hann hafi vikið að því orði.

Ég vil taka fram út af því sem kom fram hjá hv. þingmanni að ég hefði skilyrt stuðning minn við málið því að tekið yrði upp tæknifræðinám í öðrum háskóla. Það er ekki rétt. En ég vil hins vegar, sem aðdáandi Háskóla Íslands og stuðningsmaður hans, og vona að Háskóli Íslands eflist og þar verði kenndar fleiri greinar en kenndar eru í dag og það á við um tæknifræðina eins og margar aðrar námsgreinar. Það að tæknifræði sé tekin upp í Háskóla Íslands er ekki skilyrði fyrir því að ég styðji þetta mál, alls ekki, en eins og ég sagði vonast ég til að Háskóli Íslands sjái sér hag í því að taka upp það nám væntanlega við verkfræðideildina.