131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svör og fyrir að taka jafnjákvætt í þær óskir sem ég setti fram í ræðu minni og hann gerði. Ég treysti því auðvitað að orð hans endi í því að utanríkisráðuneytið taki núna í auknum mæli til við að efna gefin fyrirheit um samþættingu og jafnrétti innan íslensku friðargæslunnar. Það er auðvitað það sem málið snýst um, ekki um það að vinstri grænir hafi gagnrýnt hervæðingu íslensku friðargæslunnar sem við göngumst fullkomlega við. Við höfum ævinlega sagt: Það eru rangar áherslur í uppbyggingu friðargæslunnar. Það á að samþætta jafnréttissjónarmiðin. Það á ekki að hervæða íslensku friðargæsluna. Við höfum haft uppi fullkomlega málefnalega gagnrýni á störf friðargæslunnar hingað til, vil ég segja til hv. þingmanna sem hafa hér notað tækifærið og sagt að við séum eitthvað að breyta um kúrs í þessum efnum. Svo er ekki. Við stöndum við alla okkar gagnrýni og við fögnum því að hæstv. utanríkisráðherra skuli ætla að ganga til liðs við þessi sjónarmið.

Við erum hér í því hlutverki að halda ríkisstjórninni við efnið varðandi samþættingarmál og jafnréttismál. Við höfum séð það á jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar að það hefur gengið illa að standa við gefin fyrirheit. Það staðfesti hæstv. félagsmálaráðherra í ræðu í fyrravor þegar hann fylgdi úr hlaði nýrri jafnréttisáætlun. Það er alveg nauðsynlegt að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar taki til í sínum ranni hvað þetta varðar. Mér virðast orð hæstv. utanríkisráðherra vera með þeim hætti hér að við getum átt von á því að friðargæslan íslenska hætti að vera hið skilgetna afkvæmi karla og fái nú að njóta samþættingar- og jafnréttissjónarmiða eins og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir.