131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:19]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er vanur að draga miklar ályktanir af því sem menn segja. Ég held að það sé veruleg oftúlkun hjá hv. þingmanni að ég hafi sagt að það ætti að ganga milli bols og höfuðs á þeim sem munu reka þennan nýja háskóla. Ég sagði að það væri heiðarlegt að láta þá aðila vita hver stefna okkar flokks væri og að við teldum að þetta ætti að vera svona. Ég taldi hins vegar mjög líklegt þó að stutt væri í það að flokksmaður okkar yrði menntamálaráðherra að þeir yrðu orðnir sammála okkur um þetta þannig að þetta verður ekkert vandamál.

Varðandi það að menn megi ekki hafa frelsi til að velja rekstrarform sitt í því sem þeir hafa áhuga er algjörlega ljóst að þegar menn njóta ríkisstyrkja til þess hlýtur sá aðili sem leggur meginhluta fjármagnsins til að mega hafa einhverjar skoðanir á málinu. Þessir aðilar fara með peninga ríkisins líka. Það er ekkert vandamál fyrir menn að stofna hlutafélög út og suður um háskóla ef þeir ætla að fjármagna það algjörlega sjálfir. Þá dettur okkur að sjálfsögðu ekki í hug að fara að segja þeim til eða hafa út af fyrir sig einhverjar skoðanir á því eða hömlur, þó ekki væri, ef menn borga brúsann sjálfir. Það er hins vegar sérkennilegt þegar menn nota að uppistöðu til ríkisfé að þeir skuli þá hafa þær skoðanir að þeir megi ganga í ríkiskassann eins og þeim sýnist, hafa það form um það fjármagn sem þeim sýnist og að ríkisvaldið eigi engar skoðanir að hafa á því.

Ég vissi að hv. þingmaður væri mikill frelsissinni en fyrr má nú rota en dauðrota í frelsinu ef það eiga að vera frjáls afnot allra af ríkisfjármagninu. Það þykir mér heldur langt gengið. Ég tel mig vera nokkuð (SKK: … vilja.) frelsissinnaðan mann en þetta samþykki ég aldrei.