131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:35]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með það að menn skuli taka svona mikið mark á orðum mínum og ég stend fyllilega við það sem ég hef sagt, og vil endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni, með leyfi forseta:

„Ég er þeirrar skoðunar að skoða beri kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum …“

Síðan segi ég í niðurlagi, með leyfi herra forseta:

„Ég vil því hvetja ríkisrekna háskóla til að hefja undirbúning …“

Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt og ég ætla ekkert að slá af því og finnst þetta vera liður í málinu að við horfum til framtíðar. Ég get alveg viðurkennt að vonir mínar standa til þess að þetta nám verði tekið upp í ríkisreknum háskólum og hélt að við gætum nú sammælst um að það sé framtíðarstefnan. En það er auðvitað erfitt að standa í þeim sporum sem Samfylkingin stendur í, að þurfa að vera á móti þessu góða máli.