131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:22]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það mátti heyra á ræðu hv. þingmanns að þeir sem tala mest um akademískt frelsi vilja setja mestar hömlur á aðra.

Það þótti mér fróðlegt að heyra þegar hv. þingmaður sagði að það hefði verið tveggja manna tal milli mín og hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Hann var þar að lýsa stefnu Samfylkingarinnar og gerði glögga grein fyrir því og hrósaði sjálfum sér fyrir það að hann setti með skýrlegum hætti fram þau sjónarmið sem lægju á bak við álit Samfylkingarinnar og þið munduð taka til greina og setja skilyrði um við myndun ríkisstjórnar ef að því kæmi að Samfylkingin færi í ríkisstjórn. Þetta kallar hv. þingmaður eins manns tal, skilst mér, sem honum komi ekki við, Samfylkingunni komi ekki við, og að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hafi þá verið að tala fyrir sig einkanlega en ekki fyrir hönd Samfylkingarinnar. Það má vel vera, mér er ekki kunnugt um hvort það geti verið rétt, en það má vera að svo sé.

Ég hef ekki haldið því fram í þessum ræðustól að það eigi að breyta rekstrarformi Viðskiptaháskólans á Bifröst. Ég hef ekki haldið því fram að við eigum yfirleitt að stjórna því með hvaða hætti þeir sem reka þann skóla standa að því. Ég er á hinn bóginn mjög ánægður yfir því hversu vel hefur til tekist og hef enga ástæðu til að ætla annað en að sá háskóli sé í mikilli framþróun. Ég hef heldur enga ástæðu til að ætla annað en mjög vel hafi verið staðið að Háskólanum í Reykjavík.

Um Tækniháskólann vil ég segja að þau litlu samskipti sem ég átti við hann á sínum tíma og rektor hans, Bjarna Kristjánsson, þegar við unnum að því að koma upp Háskólanum á Akureyri, voru mjög góð og ég varð ekki var við annað á þeim tíma en að þeir sem réðu þeim skóla hefðu víða sýn og hið sama hefur mér virst á þeim kennurum sem (Forseti hringir.) ég þekki og hef kynnst úr Tækniháskólanum.