131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:04]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að ég var ekki hérna akkúrat eftir hádegið. Ég hef kannski ekki haft heilsufar til að vera hérna mikið en ákvað að vera það í restina af þessum umræðum.

Fleiri valkostir? Ég er alveg innilega sammála hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, innilega sammála. Það er akkúrat þannig, það eru tveir skólar sem menn hafa möguleika á að fara í hér, tveir tækniháskólar. Í báðum þessum skólum er kennt til BS-gráðu.

Þá kemur spurningin: Er hún öðruvísi í þessum nýja skóla, sameinaða skóla, en í háskólanum? Í háskólanum segja menn: Þeir sem hafa verið í Tækniháskólanum hafa ekki eins mikinn fræðilegan grunn, þ.e. stærðfræði og eðlisfræði. Þessi nýi háskóli mun væntanlega nálgast málin með öðrum hætti þannig að menn hafi jafna möguleika. Menn útskrifast sem Bachelor of Science í báðum skólum, sem Master of Science í báðum skólum. Menn hafa þessa valkosti og menn hafa líka þann valkost að fara utan.