131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins.

536. mál
[15:05]

Fyrirspyrjandi (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Málflutningurinn sem hér er uppi hafður kemur mér verulega á óvart. Það andar ekki köldu frá mér í garð þessara samtaka og þaðan af síður að fyrirspurn mín sé tilraun til að gera samtökin tortryggileg. Ég bar fram spurningu um hver væri formleg staða samtakanna gagnvart stofnuninni vegna þess að þau hafa verið óhrædd við það að tala máli stofnunarinnar eða láta sem samtökin geri það. Því er nauðsynlegt, fyrir þá umræðu sem fram undan er um framtíð Ríkisútvarpsins, að það liggi fyrir í hvers umboði samtökin tala.

Ég minni á að þau kalla sig Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins. Þeir sem ekki til þekkja kynnu að ætla, án þess að annað sé tekið fram, að þar séu á ferðinni erindrekar Ríkisútvarpsins. En nú hefur komið fram, í skýru svari frá hæstv. menntamálaráðherra, að á ferðinni er sjálfstætt félag, frjáls félagasamtök, sem ég amast ekki við. Ég gat ekki heyrt að hæstv. menntamálaráðherra amaðist við þeim heldur.

Það vekur aftur á móti athygli, þegar maður skoðar hverjir eru í forustu fyrir samtökin og skoðar stefnu þeirra eins og hún hefur birst í fjölmiðlum með hliðsjón af stefnu Frjálslynda flokksins í málefnum Ríkisútvarpsins, að þar er algjör samhljómur, milli Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins annars vegar og stefnu Frjálslynda flokksins í málefnum Ríkisútvarpsins hins vegar. Í ljósi þessa, og ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér stefnu samtakanna og Frjálslynda flokksins, er eðlilegt að þessi spurning komi fram. Ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér þingsályktunartillögu Sverris Hermannssonar frá 126. löggjafarþingi. En það mál hefur alloft verið endurflutt af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni hér í þingsölum. Þá sjá menn samsvörunina.