131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:41]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Einkavæðing Símans er mikið ábyrgðarverkefni sem ríkisstjórnin hefur tekist á hendur. Hún virðist ekki ætla að koma því frá sér með skynsamlegum hætti. Síminn er gríðarlega stórt fyrirtæki á þessum markaði og mun hafa algera yfirburði áfram eftir að einkaaðilar hafa fengið hann í hendur. Það er auðvitað ekki þolandi að ríkisvaldið skuli ekki reyna að sjá til þess að á þessum markaði verði eitthvert jafnvægi. Það stefnir ekki aldeilis í það.

Fólkið í landinu er á þeirri skoðun að grunnnetið eigi ekki að selja með Símanum og í raun og veru er meiri hluti fyrir því að Síminn verði ekki seldur. Við í Samfylkingunni höfum talið að það mætti einkavæða þá starfsemi en við teljum alls ekki að hægt sé að gera það með þeim hætti sem ríkisstjórnin stefnir að að gera og grunnnetið ætti a.m.k. að undanskilja. Það er auðvitað alveg hægt að gera þetta en það er svo einkennilegt með Framsóknarflokkinn að hann virðist lenda í því oftar en einu sinni að selja sannfæringu flokksmanna í einhverjum kaupskap við Sjálfstæðisflokkinn og þurfa síðan að standa við það hvað sem það kostar. Það er samt rétt að muna eftir því að það er orðið ár og dagur síðan ákveðið var að selja Símann. Það hefur ekki gengið enn og kannski er eitthvað í það að mönnum takist að klára það því frá 2001 hafa menn verið að selja Símann nánast á morgun. Nú er komið árið 2005 og ekki er búið að selja Símann enn þá. Ég held að menn ættu bara að vera rólegir yfir þessu og vonast eindregið til þess að stjórnarliðið sjái að sér og fari yfir málin að nýju því það stefnir ekki vel fyrir þessum ákvörðunum. Ég hef a.m.k. miklar áhyggjur af því samkeppnisumhverfi sem í stefnir.